149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

heilsuefling eldra fólks.

[15:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er kannski allra fyrst um þetta að segja að málaflokkur aldraðra er mjög víða í kerfinu ef svo má að orði komast. Þau málefni eru auðvitað hluti heilbrigðismála og þar með forvarna og lýðheilsumála, þau eru félagsmál að öðrum hluta sem lúta að framfærslumálum og öðru því sem heyrir til verksviðs félagsmálaráðherra, en líka félagsþjónustu sveitarfélaganna. Öll þessi málefni skarast með einhverju móti. Það er mikilvægt að sveitarfélög og ríki stilli saman strengi betur en við höfum verið að gera að því er varðar samþætta framhlið þessarar þjónustu gagnvart þeim sem þjónustunnar njóta. Við höfum ekki gert nógu vel í þeim efnum að mínu mati. Þó eru mál sem eru til fyrirmyndar og m.a. þau sem hv. þingmaður nefnir hér hjá tilteknum sveitarfélögum.

Ég vil líka nefna það að samþætting heimahjúkrunar og heimaþjónustu hefur gefist afar vel á höfuðborgarsvæðinu og það er ánægjulegt að sjá, eins og hv. þingmaður nefnir, alveg sérlega góð verkefni sem lúta að samstarfi við Janus endurhæfingu hjá Reykjanesbæ og Hafnarfirði.

Auðvitað er hluti af þessum verkefnum í mjög föstum og skýrum skorðum eins og innleiðing heilsueflandi samfélaga og heilsueflandi skóla sem er algjörlega í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og er með þessa áherslu á samþættingu allrar þjónustunnar á einum stað. Einnig má nefna aukna áherslu á heilsueflandi heimsóknir til aldraðra í heimahúsum, almennt eftirlit með heilbrigði, líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði, hreyfiseðla sem eru meðferðarrúrræði sem boðið er upp á um allt land og auk þess er embætti landlæknis með sérstaka forvarnamiðaða fræðslu á vefsíðu sinni fyrir aldraða.

Ég held að ég geti svarað spurningu hv. þingmanns þannig að það (Forseti hringir.) sé full ástæða til þess að styrkja enn þá betur það góða starf sem verið er að vinna og stilla betur saman strengi með þeim sem vinna þessi verkefni.