149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það kom fram að búið er að flýta viðræðum um endurskoðun á sauðfjárhluta búvörusamningsins og það liggja fyrir tillögur frá samráðshópnum og viðræður eru í gangi. Mér finnst mjög mikilvægt að niðurstaða um aðgerðir liggi fyrir sem fyrst svo sauðfjárbændur hafi fyrirsjáanleika í sínum rekstri. Við þekkjum öll þá erfiðleika sem verið hafa og lélega afkomu í greininni og lág laun þeirra bænda sem hafa eingöngu sauðfjárrækt til að búa við. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan þurfa flestir sauðfjárbændur að vinna með búum sínum ef þeir hafa einhver tök á.

Ég hef áhyggjur af því að við göngum hugsanlega of hratt fram í því að draga úr framleiðslu á lambakjöti. Hvað gerum við ef við þurfum að auka framleiðsluna ef eftirspurnin eykst? Það getur verið mjög erfitt að auka framleiðslu og endurreisa þær bújarðir sem fara úr ábúð. Við þurfum að leggja áherslu á að styðja við kynslóðaskipti.

Við erum að framleiða eitthvað um 10.000 tonn og salan hefur verið um 7.000 , en það vinna um 4.000 manns beint við landbúnað fyrir utan öll þau störf sem eru þar til hliðar. Þetta er hryggjarstykkið á stórum landsvæðum, sauðfjárræktin, og veitir mikla byggðafestu.

Við þurfum að auka sveigjanleika í framleiðslu svo hægt sé að bregðast við sveiflum í sölu, t.d. að lækka ásetningshlutfallið og draga þar með út hvatanum til þess að framleiða ef bændur myndu halda sínum beingreiðslum. Þetta væri útgjaldalaust fyrir ríkið.

En matvælaöryggi er mikilvægt. Sauðfjárrækt er sá þáttur sem tryggir okkur ef við höldum rétt á málum að við höfum matvælaöryggi í landinu.