149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:18]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég held að það sé ljóst að vandi sauðfjárbænda verður ekki rakinn til þess búvörusamnings sem tók gildi í byrjun síðasta árs. Vandinn er djúpstæðari en svo.

Mér virðist hins vegar að það ætti að vera öllum ljóst að gildandi búvörusamningur, þegar kemur að sauðfjárframleiðslu, er meingallaður. Hann er í raun þannig að hann eykur frekar vanda sauðfjárbænda en leysir hann. Þar vísa ég fyrst og fremst til þess að gæðastýringargreiðslur séu að taka við og verða æ mikilvægari, sem eru í raun framleiðsluhvetjandi. Það er ekki það sem bændur þurfa eða við sem samfélag.

Ég hef hægt og bítandi komist að þeirri niðurstöðu að til þess að leysa vandann, a.m.k. að einhverju leyti, sé nauðsynlegt að innleiða að nýju einhvers konar kvótakerfi í sauðfjárframleiðslu, beingreiðslur. Ég tel einnig augljóst að veruleg hagræðing verði að eiga sér stað, bæði hjá afurðastöðvum og kjötvinnslum samfara mikilli nýrri og öflugri vöruþróun.

Samfara slíkum kerfisbreytingum held ég að nauðsynlegt sé að við ræðum það að innleiða aðlögunarsamninga við sauðfjárbændur þannig að braut sé rudd fyrir bændur til að hasla sér völl á öðrum sviðum, ekki endilega í hefðbundnum landbúnaði heldur snúist aðlögunarsamningarnir að því að þeir geti hafið aðra efnahagsstarfsemi á viðkomandi jörð. Þar eru sóknarfæri, bæði þegar kemur að því að nýta sér tæknina en líka þegar kemur að loftslagsmálum.

Því miður, frú forseti, vinnst mér ekki frekar en fyrri daginn tími til að segja það sem merkilegast er.