149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áfengisauglýsingar.

116. mál
[17:21]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér kemur hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ítrekað upp og hvetur okkur til að vera nútímaleg og horfast í augu við staðreyndir. Staðreyndin er sú að hér erum við að reyna að sinna öflugum forvörnum. Staðreyndin er sú að við erum að berjast við aukna neyslu ungmenna á áfengi og vímuefnum. Staðreyndin er sú að aukið aðgengi og aukinn sýnileiki hvetur til meiri neyslu. Það er staðreynd og það segja okkur sérfræðingar á sviði forvarna og aðgerða gegn vímuefnum, að aukið aðgengi og aukinn sýnileiki auki neyslu. Það er beint samband þar á milli.

Ég vona að við tökum mark á orðum þeirra sem vinna með ungmenni og börn og þeim sem vinna að forvörnum, hvort sem það er umboðsmaður barna, Heimili og skóli, landlæknir eða aðrir.

Svo hlýtur að vera hægt að reka hér einkarekna fjölmiðla án þess að auglýsa brennivín.