149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áfengisauglýsingar.

116. mál
[17:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa yfir ánægju minni með svör ráðherra þótt ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eru ýmsar vangaveltur sem hún þarf að setja upp þegar hún setur mál sitt fram. Það er líka ljóst á þeim stjórnarþingmönnum frá Vinstri grænum og Framsóknarflokknum sem tóku þátt að þeir eru alfarið á móti öllum breytingum þegar kemur að því, sem kemur reyndar ekki á óvart.

Ég deili að vissu leyti sjónarmiðum ráðherra um Ríkisútvarpið, það er stærsti þátturinn varðandi auglýsingamarkaðinn hjá fjölmiðlum. Ég deili líka því sjónarmiði að neytendur hafi ríkra hagsmuna að gæta þegar kemur að auglýsingum og ekki eingöngu íslenskir framleiðendur heldur einnig íslenskir neytendur.

Ég vil minna á að 1. mars 1989 var bjórinn leyfður. Síðan 1991 hefur fyrirtækið Rannsóknir & greining verið með reglubundnar mælingar á áfengis- og vímuefnaneyslu íslenskra ungmenna. Við erum komin frá því að vera með mestu neysluna árið 1991 í þá minnstu núna. Það segir okkur að forvarnir skila sér þrátt fyrir að við aukum framboð á markaði, eins og gerðist með tilkomu bjórsins árið 1989.

Það sem ég hvet til er að við horfumst í augu við ástandið á áfengisauglýsingamarkaði. Það er einfaldlega ekki nútímalegt og uppfyllir ekki þær kröfur sem við getum gert til ramma utan um slíka starfsemi. Verum raunsæ og horfumst í augu við það. Við getum farið aðrar leiðir eins og þá að heimila auglýsingarnar með verulegum takmörkunum, sem hefur gefist vel hjá öðrum þjóðum. Við eigum að líta til þess.

Ég hvet ráðherra til að beita sér í málinu. Ég get huggað hæstv. ráðherra með því að að sjálfsögðu mun koma hingað frumvarp innan tíðar sem felur í sér afnám ríkiseinokunar á áfengissölu á Íslandi.