149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil rétt eins og hv. málshefjandi þakka fyrir afar góða umræðu, en ég held að við öll sem tókum þátt í henni séum með mjög sterka tilfinningu fyrir því að henni sé engan veginn lokið heldur höfum við aðeins snert á nokkrum þáttum. Ég held að ég megi til með í lok þessarar umræðu að hvetja velferðarnefnd til þess að kalla þá sem best þekkja til í þessum málaflokki á sinn fund og fá dálítið ítarlega umræðu um þetta á vettvangi nefndarinnar, ekki síst vegna þess að þetta verður sannarlega sífellt meiri og sterkari þáttur í íslenskri heilbrigðisþjónustu.

Mig langar að nefna nokkur atriði og kannski í fyrsta lagi það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi sem er afar mikilvægt, þ.e. að forvarnir byggi á traustum vísindalegum grunni, það séu notaðar gagnreyndar aðferðir, ekki hugdettur eða vangaveltur. Þær eru oft góðra gjalda verðar, en ef við ætlum að beita forvörnum verðum við að gera kröfur til þess að þær séu vel undirbyggðar og sannarlega þannig að með þeim megi ná árangri.

Í öðru lagi vil ég segja það að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur dregið það fram að 70% af ótímabærum dauðsföllum í heiminum koma til af þeim sjúkdómum sem kallaðir hafa verið langvinnir, þar með taldir geðsjúkdómar, þar að auki hjarta- og æðasjúkdómar, öndunarfærasjúkdómar, sykursýki og krabbamein. Stofnunin bendir á að þetta séu allt saman sjúkdómar sem megi hafa áhrif á með aukinni heilsuvernd, lífsstílstengdum áherslum o.s.frv. Það snýst ekki bara um aukin lífsgæði eins og hér kom fram heldur líka það að draga úr álagi á heilbrigðisþjónustuna þar sem við bregðumst í raun og veru ekki við fyrr en á þeim endanum þegar vandinn er orðinn til.

Í þriðja lagi, þar sem við erum hér í raun að tala um að mestu leyti einn anga geðheilbrigðismála, má ég til með að nefna að það er mikilvægt fyrir okkur öll að halda því til haga að geðheilbrigði er partur af heilbrigði almennt. (Forseti hringir.) Við getum ekki talað um geðheilbrigðismál sem einhvern anga eða hliðarverkefni o.s.frv., vegna þess að manneskju sem líður illa andlega líður líka illa líkamlega (Forseti hringir.) og öfugt. Þetta hangir allt saman. Manneskjan er (Forseti hringir.) samsett vera og heilbrigðisþjónustan verður að endurspegla (Forseti hringir.) þann veruleika.