149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst lýsa því yfir að mér líst prýðilega á uppskiptingu þessara tveggja ráðuneyta sem hér er talað fyrir. Það er þó eitt atriði sem er aukaatriði í þeirri breytingu sem snýr að flutningi mannvirkjamála til félagsmálaráðuneytisins úr umhverfisráðuneytinu, sem ég hef efasemdir um. Sjálfur hefði ég talið skynsamlegt að mannvirkjamálin yrðu flutt til sveitarstjórnarráðherrans í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. forsætisráðherra á því hvort það hafi komið til skoðunar sérstaklega, því að nú eru málefni sveitarfélaga þar og þar er lóðaframboð vistað, sem er eilífðarvandamál sem við eigum við að stríða á höfuðborgarsvæðinu. Ég vildi gjarnan fá að heyra hvort það kom til greina á einhverjum tímapunkti að færa mannvirkjamálin til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, hvort það hafi verið skoðað sérstaklega.