149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Hann nefndi að hann sæi það ekki í fyrirsjáanlegri framtíð að sveitarstjórnarmálin færu yfir til félagsmálaráðherra. Það er nú ekki mjög langt síðan sveitarstjórnarmálefnin voru hjá félagsmálaráðherra þannig að við höfum séð ýmsar breytingar á málaflokkum þegar við horfum áratug aftur í tímann eða svo. Ég vil ítreka að ástæðan fyrir því að ég geri þetta að tillögu minni er hið mikilvæga stefnumótunarhlutverk í húsnæðismálum sem liggur hjá félagsmálaráðherranum. Ég skil þau rök sem hv. þingmaður færir fram og tel þau líka gild. En þessi rök voru yfirsterkari þegar við komumst að þeirri niðurstöðu að þarna þyrfti að móta ákveðna húsnæðisstefnu fyrir landið allt. Eins og ég nefndi er vandinn mismunandi milli ólíkra svæða. Við töldum að vel færi á því. Eins og ég segi geta líka verið gild rök fyrir hinu en okkur fannst þessi rök vega þyngra á metunum.