149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[16:22]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á viðmiðum álagningar skatta á ökutæki. Að vissu marki eru skattar og gjöld lögð á eigendur ökutækja miðað við skráða koltvísýringslosun viðkomandi ökutækis. Þetta á við í tilviki vörugjalds af ökutækjum, bifreiðagjalds og virðisaukaskattsívilnunar sem eigendur tengiltvinnbifreiða hafa notið.

Markmið frumvarpsins er að treysta grundvöll skattlagningar ökutækja og tryggja samræmi hennar eftir fremsta megni. Í ljósi breytinga sem hafa orðið á þeim aðferðum sem notaðar eru við mælingu á m.a. koltvísýringslosun ökutækja er æskilegt að gera breytingar á þeim reikniforsendum skatta og gjalda sem taka mið af skráðri koltvísýringslosun.

Koltvísýringslosunin sem vísað er til í ákvæðum framangreindra lagabálka er skráð af Samgöngustofu í samræmi við reglur sem byggja á ákvæðum umferðarlaga. Hin skráða losun byggist á upplýsingum sem koma fram í svokölluðu samræmingarvottorði sem lagt er fram af innflytjendum ökutækja. Slíkt vottorð fylgir hverju ökutæki.

Á árunum 2017–2020 er verið að taka upp nýjan staðal til mats á mengun, losun og eldsneytiseyðslu ökutækja. Í frumvarpinu er hann nefndur samræmda prófunaraðferðin. Hingað til hafa losunarupplýsingar að meginreglu verið byggðar á aðferðafræði eldri staðals, evrópsku aksturslotunnar. Frá og með 1. september 2018 munu öll ný ökutæki sem markaðssett eru á EES-svæðinu fá uppgefna koltvísýringslosun, annars vegar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni og hins vegar samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Losunarupplýsingarnar verða í fyrrnefnda tilvikinu merktar WLTP á samræmingarvottorði ökutækis, en NEDC í tilviki eldri staðals. Á þeim tíma verða einnig umtalsverðar breytingar á losunarupplýsingum sem verða skráðar samkvæmt evrópsku aksturslotunni. NEDC-gildi verða ekki byggð á mati samkvæmt eldri aðferðafræði heldur aðeins samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Þau verða hins vegar umreiknuð þannig að samsvari sem best niðurstöðum evrópsku aksturslotunnar.

Samræmda prófunaraðferðin tekur tillit til ýmiss konar aukabúnaðar ökutækja sem evrópska aksturslotan gerir ekki. Vegna þessa er að óbreyttu hætta á að verulegur munur kunni að verða á vörugjaldi sambærilegra ökutækja sem búin eru mismunandi búnaði. Sá munur verður án tengsla við þá hækkun koltvísýringslosunar sem búnaðurinn orsakar.

Til að koma í veg fyrir að ósamræmi skapist við skattlagningu ökutækja þarf að gera tvenns konar breytingar:

1. Jafna þarf þunga skattlagningar á eigendur ökutækja með hliðsjón af þeim mun sem er líklegt að verði á skráðum losunarupplýsingum vegna ökutækja nýrrar aðferðafræði við mat á mengun, losun og eldsneytiseyðslu ökutækja.

2. Falla þarf frá því fyrirkomulagi að leggja vörugjald á innflytjendur og framleiðendur ökutækja í tíu gjaldbilum og taka þess í stað upp línulega skattlagningu, ef svo má segja, þ.e. skattlagningu miðað við hvert gramm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar.

Golfbifreiðar hafa borið 30% vörugjald um nokkra hríð óháð því hvers konar aflvélum þær eru búnar. Stjórnvöld stefna að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum og í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að stuðla að orkuskiptum er lagt til að golfbifreiðar verði alfarið undanþegnar vörugjaldi séu þær eingöngu knúnar rafhreyfli. Verði tillagan samþykkt verða slíkar bifreiðar meðhöndlaðar með sama hætti og t.d. rafmagnsbifreiðar og bifhjól sem ganga fyrir rafhreyfli.

Til grundvallar gildandi lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. liggur sú stefnumörkun að ökutæki sem alla jafna eru eingöngu notuð í atvinnurekstri skuli njóta undanþága frá vörugjaldi. Í ljósi stefnumörkunar eru settar fram tvær tillögur í frumvarpinu. Annars vegar er lagt til að aðeins sendibifreiðar sem ekki eru búnar farþegasætum eða festingum fyrir þau í farmrými og/eða flutningsrými falli undir undantekningarákvæði g-liðar 2. töluliðar 4. gr. laganna. Sendibifreiðar sem búnar eru farþegasætum eða festingum fyrir þau í farmrými munu því bera vörugjöld miðað við skráða koltvísýringslosun en ekki fast 13% vörugjald.

Hins vegar er lagt til að vörugjald af ökutækjum sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða meira, sem ekki eru skráningarskyld samkvæmt umferðarlögum, beri fast 13% vörugjald. Segja má að þarna sé um lagfæringu að ræða í ljósi annmarka sem hafa komið á daginn í framkvæmd.

Til að treysta hagsmuni ríkissjóðs í ljósi ívilnana vegna ökutækja til tiltekinna nota er lagt til að áréttað verði að ríkissjóður eigi lögveð í ökutækjum þar til ljóst má telja að skilyrði ívilnana hafi verið haldin.

Ítarlegar skýringar á efni frumvarpsins er að finna í greinargerð þess. Til nánari skýringa vísa ég til þess sem þar kemur fram.

Ég vonast til þess að frumvarpið fái skjóta afgreiðslu á Alþingi, enda er fyrirsjáanleiki mikilvægur fyrir kaupendur og söluaðila ökutækja.

Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að 1. umr. lokinni.