149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[16:55]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt markmið að reyna að varðveita tunguna og styrkja bóklestur með þessum hætti. Það er að vísu skrýtið, að mínu mati, að ekki hafi verið farin sú leið að fella niður virðisaukaskatt eins og upprunalega var lofað fyrir kosningar, sérstaklega í ljósi samanburðar við aðra hluti sem fá virðisaukaskattsniðurfellingu, t.d. íþróttir.

Það hefur svo sem verið sagt að sá sem les ekki bækur hafi ekkert umfram þann sem getur ekki lesið bækur, þannig að öll viðleitni til að auka bóklestur og aðgengi að bókum er af hinu góða. Virðisaukaskattsniðurfelling gæti að vísu haft þau jákvæðu áhrif að ná yfir bækur á öðrum tungumálum en íslensku, þannig að þó að ég sé sammála því að varðveita íslenskuna er líka jákvætt að fólk lesi á því tungumáli sem það vill.

Það er spurning hvort þessi 10% lækkun, sem getur orðið, sé nóg til þess að breyta aðgengi að bókum. Það er kannski mín spurning til hæstv. ráðherra, hvort ráðherra geti hugsað sér einhverjar aðrar aðgerðir til þess að reyna að auka aðgengi að bókum í þessu samhengi, t.d. að hefja skönnun og birtingu á netinu af bókmenntalegum menningararfi landsins.

Í greinargerð frumvarpsins segir að frumvarpið hafi ekki verið sett í samráðsferli samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna en heimilt sé að víkja frá þessu ef mál eru sérlega brýn eða aðrar gildar ástæður eru fyrir hendi. Mig langar svolítið til þess að vita hvort málið sé það brýnt að sniðganga hafi þurft þetta ferli eða hvort aðrar gildar ástæður, sem ég er þá ómeðvitaður um, hafi legið að baki. Það er nefnilega mjög mikilvægt að mál af þessu tagi fari í eðlilegt samráð.