149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[16:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Stóra markmiðið með þessum aðgerðum er að styðja við bókaútgáfu á Íslandi vegna menningarlegs mikilvægis hins ritaða máls. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er líka mikilvægt að lesa bækur á öðrum tungumálum, en aðgerðir í viðkomandi ríkjum miða að því að styðja við bókaútgáfu hjá þeim sjálfum. Ég tel því langskynsamlegast að ná utan um íslenska mengið núna. Ég er á því að málið sé mjög brýnt. Það er algjörlega óásættanlegt, að mínu mati, að horfa upp á þann gríðarlega samdrátt sem verið hefur alveg frá árinu 2008. Ég hef mjög sterka sannfæringu fyrir því að mikill og góður og djúpur lesskilningur marki þau lífsgæði sem viðkomandi einstaklingur hefur og tækifæri, og sér í lagi nú þegar við göngum inn í miklar tæknibreytingar og tæknibyltingu. Við þurfum á einstaklingum að halda sem eru ekki bara læsir heldur geta lesið sér til gagns; að þeir séu búnir að lesa þannig að þeir geti rýnt texta og gagnrýnt þá. Við erum ekki bara að tala um almennt læsi, heldur að dýpka það.

Varðandi þá fyrirspurn er tengist virðisaukaskattinum þá skoðuðum við málið mjög gaumgæfilega, hvað væri markvissara og skilvirkara til að efla bókaútgáfu á Íslandi, og komumst að þessari niðurstöðu. Ég er mjög stolt af því. Aðalatriðið er hvernig við náum þessu markmiði, ekki hver leiðin er. Ég er þannig gerð sem stjórnmálamaður að ef ég sé að eitthvað getur hugsanlega komið betur út til að komast að því markmiði þá fer ég þá leið.