149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Íslenska er okkur öllum hjartans mál og ber því að fagna áhuga manna á að efla íslensku með ráðum og dáð. Mig langar til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um ætluð áhrif af frumvarpinu. Það kemur fram í kafla 3 í greinargerðinni þar sem sýnt er línurit af þróun veltu í bókaútgáfu að hún hefur dregist verulega saman, um 40,5% eins og þar kemur fram. Ég velti fyrir mér hvað það er sem hefur valdið þeim veltusamdrætti. Er það verðlag á bókum eða aðrir þættir?

Talað er um aðra þætti í greinargerðinni, breytta samfélagsgerð, tækniþróun og þess háttar, og þess vegna velti ég fyrir mér hvort ráðherra hafi djúpa sannfæringu fyrir því að verðlag á bókum hafi þarna úrslitaþýðingu. Hvað er það sem rennir stoðum undir að bækur lækki í verði? Hvað styður við það?

Síðan kemur fram á öðrum stað í greinargerðinni, í mati á áhrifum í 6. kafla, að markmiðið sé að styðja við bókaútgáfuna og ætti að geta gert bókaútgefendum kleift að lækka verð á bókum að lágmarki um 10% eða gagnast á annan hátt.

Það sem ég á erfitt með að skilja er hvar rökin eru fyrir því að sú ráðstöfun muni efla bókaútgáfu og auka lestur. Ég vil svo gjarnan að það takist og gerist. Ég styð markmiðin í sjálfu (Forseti hringir.) sér en hef ekki djúpa sannfæringu fyrir því að þetta dugi til eða sé leiðin.