149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:13]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér í 1. umr. frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um lagastuðning við bókaútgáfu á íslensku. Ég efast alls ekki um að markmiðið með frumvarpinu sé gott og göfugt. Ég styð ríkisstjórnina heils hugar í þeirri viðleitni og þeim aðgerðum sem hún telur réttar til að bregðast við stöðu sem upp er komin, þ.e. í rekstri hjá bókaútgefendum, enda dreg ég ekki í efa, eins og fram kemur í greinargerð, að rekstrarskilyrði bókaútgáfu á Íslandi séu ekki eins og best verður á kosið.

Ég ætla þó að leyfa mér að hafa uppi ákveðin varnaðarorð um þá leið sem farin er — ekki vegna þess markmiðs sem að er stefnt með frumvarpinu; ég tel gott að við leitum allra leiða til að styðja við íslenska tungu og bókaútgáfu á Íslandi og þar af leiðandi líka lestur ungmenna sérstaklega — og segja að það getur alls ekki verið meginregla í starfsemi ríkisins að ríkið hlutist til um og niðurgreiði tiltekna atvinnustarfsemi. Alls ekki. Það verða að vera sérstaklega góð rök og afmarkað efni til að réttlæta að ríkið grípi inn í atvinnustarfsemi eins og hér er gert með því að niðurgreiða tiltekinn rekstrarkostnað.

Það eru ekki bara bókaútgefendur sem eru í rekstrarerfiðleikum. Ég held að hvar sem borið er niður í íslensku atvinnulífi sé hægt að finna dæmi — finna rök fyrir því að tiltekin starfsemi, sem er tekin út fyrir sviga, gæti vel þegið að ríkið hlypi undir bagga. Við sjáum þess merki víða í atvinnulífinu í dag, hvort sem er í ferðamennsku, matvælaiðnaði eða í þeim greinum sem eiga í alþjóðlegri samkeppni. Það kreppir víða að. Því er rétt, að mínu mati, að við ræðum einmitt þetta sérstaklega: Hvað er það við bókaútgefendur sem er svona sérstakt?

Ég er meðvitaður um að í gildandi löggjöf er ríkið með ýmiss konar inngrip í rekstur eða atvinnugreinar. Það á við í kvikmyndageiranum. Hér er talað um tillögur um að ríkið niðurgreiði starfsemi fjölmiðla, sem á eftir að ræða hér á Alþingi. Það er líka svo að ríkið sjálft er í ýmiss konar rekstri sem erfitt er að sjá með sanngjörnum rökum að virkileg þörf sé á.

Spurningin er í fyrsta lagi: Geta stjórnvöld gert eitthvað til að létta undir með atvinnulífinu eða þessum tiltekna rekstri? Svarið við því er að sjálfsögðu já. Hin almenna og skynsamlega leið er að nálgast málið almennt í allri löggjöf, enda skulu allir vera jafnir fyrir lögum. Ríkið ætti að forðast í lengstu lög að gera upp á milli atvinnugreina. Þó þarf að gæta þess að rammi til verðmætasköpunar í atvinnustarfsemi, eða hvers konar starfsemi sem er, sé skýr, almennur og án íþyngjandi kvaða, íþyngjandi regluverks eða sérstaklega íþyngjandi álagna eða skatta.

Ef við förum þá leið kæmi það ekki einungis bókaútgefendum til góða heldur allri atvinnustarfsemi í landinu, til að mynda með lækkun tryggingagjalds eða fyrirtækjaskatts, eða skatta á einstaklinga — nú, eða með almennri lækkun á virðisaukaskatti. Það kæmi öllum til góða og við næðum þeim markmiðum sem að er stefnt gagnvart bókaútgefendum fyrir allar aðrar atvinnugreinar.

Ég nefni þetta hér vegna þess að ég spyr einfaldlega: Er það svo að þetta sé í síðasta sinn í þessum sal sem stungið er upp á því, út af brýnni þörf og göfugu markmiði, að rétt sé að ríkið stígi inn í og niðurgreiði tiltekna atvinnustarfsemi með skattfé? Er það svo að þetta sé síðasta málið sem verður rætt hér á Alþingi? Nei, það held ég ekki, langt í frá. Hvernig ætlum við þá að taka á því þegar næsta atvinnugrein bankar á dyrnar hjá stjórnvöldum og segir: Nú væri mjög gott að fá smániðurgreiðslu frá ríkinu út af tilteknum rekstrarkostnaði? Við erum sem sagt að opna hér á mjög slæmt fordæmi sem erfitt verður að vinda ofan af.

Þá kem ég að öðrum þætti í frumvarpinu sem er áhugaverður. Eins og ég sagði áðan efast ég ekki um að bókaútgefendur eru í vandræðum. Samkvæmt 1. gr. í frumvarpinu er markmiðið að veita tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu. Hver er tímaramminn? Í 12. gr. er fjallað um að lögin eigi að koma til endurskoðunar fyrir 31. desember 2023 og ráðherra skuli gera skýrslu eða leggja mat á hvernig til hafi tekist. Það er allt saman gott og blessað. En ég segi: Þegar atriði eins og þetta er komið inn í lög er hægara sagt en gert að fella stuðninginn niður aftur.

Á hvaða tímapunkti mun það gerast að bókaútgefendur komi til ríkisins og segi: Takk fyrir, staða okkar er slík að við þurfum ekki niðurgreiðslur ríkisins? Er einhver hér inni sem getur ímyndað sér að það muni eiga sér stað með þeim hætti? Nei, ég held að það muni nefnilega aldrei gerast, hvorki í þessu máli né öðrum, þegar ríkið hefur á annað borð hafið niðurgreiðslu á tilteknum rekstrarkostnaði. Þess vegna geld ég varhuga við þessu. Það er spurning, í þessari viðleitni til að styðja við bókaútgefendur, hvort rétt sé að velta því upp, og skoða það í meðförum þingsins, að tímabinda gildistökuna til fjögurra eða fimm ára og það þurfi þá jákvætt inngrip af hálfu löggjafans ef vilji er til að framlengja stuðninginn.

Aðeins um þá ákvörðun að fara þessa leið: Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra að úr því að vilji er til að fara þessa leið — ég efa ekki að málið hljóti brautargengi hér í þinginu og hef út af fyrir sig ekkert út á það að setja vegna þess göfuga markmiðs sem að er stefnt; ég er mjög áfram um að bókaútgefendum gangi vel — er rétt að velja þessa leið í staðinn fyrir að gera undanþágur til að mynda á virðisaukaskattskerfinu eða einhverju slíku. Það liggur þá fyrir hvert markmiðið er, hvernig standa eigi að því; reynt er að ramma inn hvaða kostnað eigi að ná utan um og hvernig eigi að endurgreiða hann.

Fyrr í þessari umræðu var komið inn á það að þetta sé ekki eina leiðin til að styðja við íslenska tungu eða efla læsi íslenskra ungmenna. Það er óþarfi að gera of mikið úr þessari leið, að hún nái tilteknum árangri. Það eru önnur öfl að verki í samfélaginu — örar tæknibreytingar, staða ungmenna í menntakerfinu og annað slíkt — sem munu vekja stærri spurningar sem þarf að svara. Til að mynda má spyrja hvers vegna læsi ungra drengja sé svona miklu síðra en stelpna, hvað sé að gerast í menntakerfinu okkar hvað varðar lestur barna o.s.frv. Í þessu tel ég að ríkið hafi raunverulega tök á að hafa áhrif og breyta hlutum til hins betra.

Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að útgáfa á barnabókum er sérstakt svið sem ríkið hefur fullt umboð til að beita sér á. Þá vaknar reyndar sú spurning hvort byrja ætti á því að beina stuðningi til bókaútgefenda sérstaklega að barnabókum. Það gæti verið markmið í sjálfu sér. Það er atriði til að ræða og skoða sérstaklega ef við viljum ná utan um það vandamál að ekki sé nægilega mikið gefið út af íslenskum barnabókum. Er hægt að lyfta þeim þætti eitthvað sérstaklega? Einnig hefur verið rætt um aðrar leiðir í umræðunni hér. Það er auðvitað annað sem ríkið getur gert, þ.e. að skoða sérstaklega fyrirkomulag listamannalauna. Er ástæða til að gera rithöfundum hærra undir höfði, að í því fyrirkomulagi séu rithöfundar styrktir sérstaklega, stuðningur aukinn við þá? Einnig er hægt að styrkja sérstaklega rithöfunda sem skrifa efni fyrir börn. Þetta tel ég vera atriði sem mætti skoða.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara nánar út í frumvarpið. Þessi ræða miðaði að því að koma að almennum sjónarmiðum sem hafa ber í huga þegar verið er að fara óvenjulega leið sem er í raun ekki kjarnastarfsemi ríkisins; vara við því að það sé sjálfgefið, þó að það sé gert í þessu tilviki, að ríkið hlutist til um tiltekna atvinnustarfsemi. Það er alls ekki sjálfgefið að það eigi við þegar næsti hópur aðila í atvinnulífinu bankar upp á og telur á sig hallað og óskar eftir stuðningi með skattfé.