149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:27]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að halda hér langa ræðu að þessu sinni. Frumvarpið á eftir að fara í nefnd, það á eftir að vinna það þar og það á eftir að fara í umsagnarferli. Við eigum eftir að heyra sjónarmið ýmissa aðila sem þetta varðar og rétt að vera ekki of yfirlýsingaglaður fram að því.

Ég vil þó nefna að e.t.v. hefði farið betur á því að samráð hefði verið haft við rithöfunda. Það kemur fram í greinargerð að haft var samráð við útgefendur og skattyfirvöld en ekki rithöfunda. Við heyrum væntanlega sjónarmið rithöfunda þegar málið kemur til nefndar.

Ég þarf heldur ekki að hafa mörg orð um þá stöðu sem við erum að bregðast við, sem er minnkandi bóklestur, bæði meðal ungmenna og eins almennt í þjóðfélaginu. Það á sér ýmsar orsakir sem reifaðar hafa verið, m.a. hér af hæstv. ráðherra og þeim sem hafa tekið til máls í umræðunni. Það eru nýir miðlar, ný tækni og það er minni tími sem fólki gefst og fólk gefur sér til að eiga stund með bók.

Þessu fylgir viss hætta fyrir íslenska menningu og íslenska sjálfsmynd. Ef við hættum alveg að upplifa okkur í textum er hætta á einhvers konar menningarlegu rofi sem gæti átt sér stað og maður sér jafnvel merki um í þjóðlífinu, að ákveðið menningarlegt rof sé að eiga sér stað.

Ég hegg eftir því, varðandi nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, að gert er ráð fyrir því að þessi þriggja manna nefnd verði skipuð af fjármálaráðherra og ráðherra sem fer með málefni iðnaðar og nýsköpunar og svo menntamálaráðherra og varamenn séu þá skipaðir með sama hætti. Það kann að vera ágætt en ég vil þó nefna að hin pólitísku spor hræða í þessum efnum. Við höfum mörg dæmi um það, í stuttri sögu íslenska lýðveldisins, að pólitískir flokkar hafi notað svona aðstöðu, svona stöðu, til þess að beita sér pólitískt, ota sínum tota og jafnvel nota svona stöður sem bitlinga fyrir vildarfólk — án þess þó að ég sé að gera því skóna að það standi til. Ég velti því upp hvort hugsanlega sé hægt að hafa þetta fyrirkomulag með þeim hætti að tryggt sé að fólk með góða þekkingu á bókaútgáfu og bókmenntum sé í þessari nefnd.

Ég vil þó segja almennt um þetta mál að ég tel það vera þjóðþrifamál og þarft mál. Ég styð þetta mál. Þetta á sér langa sögu. Barist var fyrir afnámi virðisaukaskatts á bókum um árabil og litið á það sem aðgerð til að bregðast við bráðavanda sem bókaútgáfan hefur átt í. Þegar sú barátta fór af stað lá í loftinu að gera ætti eitt þrep sem yrði þá í 17–20%, en þá sneru rithöfundar og bókaútgefendur bökum saman í baráttu sinni fyrir því að bókaútgáfan yrði undanþegin slíku, enda hefðu fylgt því mjög auknar álögur á þennan viðkvæma rekstur. Sú staða er ekki lengur uppi. Það stendur ekki lengur til innan fjármálaráðuneytisins að hafa hér eitt þrep og það breytir málinu.

Árið 2015 gerðist það að neðra þrepið hækkaði úr 7% í 11%. Á þeim tíma var Bókasafnssjóður hins vegar efldur og líka launasjóður rithöfunda. Þessir sjóðir voru efldir og var það hugsað sem einhvers konar mótvægi við það. Ég tek undir það sem hefur komið fram í þessari umræðu, um nauðsyn þess að efla starfslaun rithöfunda svo að sjóðir rithöfunda geti sinnt því hlutverki að gefa nýliðum kost á að hefja sinn feril og koma sér almennilega fyrir og gerast rithöfundar — maður þarf alltaf að skrifa nokkrar misheppnaðar bækur áður en maður skrifar meistaraverkin. Einnig er nauðsynlegt að huga að því hlutverki þeirra að tryggja eldri höfundum ákveðið lágmarksafkomuöryggi. Það hefur verið misbrestur á því.

Um árabil hefur verið sölusamdráttur og staðan hefur bara versnað. Nú er svo komið að afnám virðisaukaskatts eitt og sér myndi ekki duga til að laga þann vanda sem við er að etja. Rekstrarskilyrði bókaútgáfunnar eru slæm. Stuðningur við bókaútgáfu á Íslandi hefur verið minni en manni finnst ástæða til. Við megum ekki gleyma því, þegar við ræðum um þetta, að lítil málsvæði eiga undir högg að sækja um allan heim. Þá er jafnvel talað um Norðurlandamálin sem lítil málsvæði í þessu samhengi, mál sem milljónir tala. Það er talað um frönsku sem málsvæði sem eigi undir högg að sækja í því umhverfi þar sem enskan er allsráðandi. Hvað má þá segja um tungumál sem þjóðarkríli talar? Það er varla hægt að kalla Íslendinga smáþjóð, við erum þjóðarkríli, 350.000 manns sem tölum þessa litlu tungu og höfum þær skyldur líka gagnvart heiminum, gagnvart mannkyninu og gagnvart komandi kynslóðum, að varðveita þetta tungumál og varðveita þær bókmenntir sem til eru á þessu tungumáli. Vandinn hefur sem sé verið ærinn.

Ég verð að játa að ég er klofinn þegar kemur að þessu máli vegna þess að ég hef á minni ævi verið bæði rithöfundur og starfsmaður hjá bókaforlagi. Mér er tamt að horfa á þetta þannig að ég reyni að sætta sjónarmiðin innra með sjálfum mér. Stundum hugsa ég eins og rithöfundur og hugsa þá um það sem mér ber sem rithöfundi og stundum hugsa ég eins og starfsmaður hjá bókaforlagi og hugsa þá um afkomu greinarinnar og um að fyrirtækin hafi sómasamleg rekstrarskilyrði. En ég held að þetta eigi að geta farið saman.

Hér kom fram ágæt spurning hjá hv. þm. Þorgrími Sigmundssyni, hann spurði eitthvað á þá leið hvort útgefendur væru kannski bara óþarfur milliliður, hvort ekki væri hægt að taka þessa peninga og láta bara höfundana hafa þá beint, það þyrfti ekki að láta þetta fara í gegnum bókaútgáfurnar sem væru óþarfur milliliður. Mér finnst gæta viss misskilnings í þeirri spurningu. Bókaútgáfa er margt fleira. Það er náttúrlega allt komið undir rithöfundinum, að rithöfundurinn skrifi sín verk og sínar sögur og ljóð og hvaðeina. Engu að síður er bókagerð sérstakt fag, sérstakur iðnaður. Það er sérstök sérþekking sem er til í bókaútgáfunum í landinu sem ekki er hægt að ætlast til að rithöfundur búi yfir. Rithöfundur á fullt í fangi með að muna hvað persónurnar í 500 bls. skáldsögu heita og hvernig þær tengjast allar, hann þarf að hafa hugann við það. Hann getur ekki endilega verið með allan hugann við markaðssetninguna og kápugerðina og öll þau litlu viðvik sem þó þarf að gera sem tengjast bókaútgáfu. Þetta er bransi. Það er fullt af fólki sem vinnur við þetta og um er að ræða afkomuspursmál fyrir fullt af fólki. Þarna er líka samankomin mikil þekking á því að búa til bækur.

Þarna er sett ákveðið lágmark upp á milljón með endurgreiðslu. Maður hefur séð spurningar um hvort ástæða sé til að lækka þá upphæð, t.d. hafa ýmsir bent á hvort þetta geti leitt til þess að ljóðabækur komi síður út, að útgefendur gefi ekki út ljóðabækur vegna þess að það kosti minna en milljón að gefa út ljóðabækur. Aðrir hafa nefnt barnabækur í þessu sambandi. Þá er á það að líta að það kostar meira en milljón að gefa út ljóðabók ef það er gert hjá bókaforlagi og gert með því að bókin sé lesin yfir og prófarkalesin, það sé umbrot og kápa og það sé bara gengið almennilega frá viðkomandi bók. Þá er kostnaðurinn yfir milljón. Sú mótbára á því ekki við í þessu sambandi.

Rithöfundar, rithöfundurinn í mér og rithöfundar yfirleitt, spyrja hvort ástæða sé til að óttast að þeir beri skarðan hlut frá borði í þessu sambandi. Þeir velta því líka fyrir sér hvort verðlækkunin skili sér til neytenda. Við þurfum svo sannarlega að hafa auga með því. En ég sé þó ekki ástæðu til að ætla annað en að svo verði. Og rithöfundar velta líka fyrir sér hvað af þessari endurgreiðslu á þeim kostnaðarlið, sem er greiðsla til höfunda, skili sér til rithöfundanna sjálfra. Það er líka annað sem við þurfum kannski að hafa auga með í þessu. En það er hagsmunamál rithöfunda að bókaútgáfan í landinu sé ekki á heljarþröm.