149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið og er sammála öllu því sem ráðherra sagði. Valið á tiltekinni leið, hvort við förum vaskleiðina eins og við getum kallað það, að fella niður virðisaukaskatt á bókum, eða þessa leið eða erum með stuðning við einhvern af þeim haghöfum sem þarna eru, er svo matskennt að ég get ekki fullyrt að þetta sé endilega betri leið en einhver önnur. Ég lít á hana sem tilraun. Slíkur stuðningur er bráðnauðsynlegur í einhverju formi en það er líka mjög mikilvægt að árangursmeta strax eftir eitt ár, tvö ár, þrjú ár. Ég er ekki hræddur um að þetta verði eilíft að svo komnu máli, að þótt ríkið taki sér það til ráðs verði svo um alla framtíð.

Ég vil ítreka, og það kom líka fram hjá hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, að þegar farið verður að hlusta á haghafana í nefndarstarfi séu rithöfundar fengnir að borðinu, vegna þess að þeir hafa jú ekki verið jafn gleiðbrosandi yfir þessu og útgefendur og gott að heyra hvað þeim liggur á hjarta.