149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:05]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er hvorki rithöfundur né bókaútgefandi en málið stendur okkur öllum mjög nærri. Svo að við höldum okkur á persónulegu nótunum, eins og gert var áðan, hef ég kennt unglingum og ungmennum íslensku í 20 ár. Ég fagna því öllum leiðum, öllum aðgerðum sem hvetja til læsis og styðja við bókaútgáfu. Það er gríðarlega mikilvægt að við öll, fullorðið fólk, höfum góð tök á lestri og ekki aðeins okkur til gagns heldur ekki síður til gamans og ánægju. En fullorðnir lesendur verða ekki til upp úr engu. Þeir byrja ungir lesendur.

Öll hvatning til bókaútgáfu er góð. Okkur vantar barnabækur, okkur vantar ekki síst ungmennabækur sem höfða til sem flestra. Það er ákveðin tilhneiging til að halda að ungmenni, fólk á aldrinum 16–25 ára, séu einsleitur hópur. Þetta er mjög fjölbreyttur hópur og við þurfum fjölbreytt lesefni fyrir þann hóp.

Í skólastofunni hef ég orðið vör við að orðaforði ungmenna er í mörgum tilfellum afar slakur og honum hefur farið mjög hnignandi á þeim 20 árum sem ég hef kennt. Ég tók einu sinni saman lista yfir orð sem ég hélt að væru í almennri notkun og væru virk orð í orðaforða okkar allra en sem nemendur mínir, 16 ára og eldri, þekktu ekki. Það er sláandi listi.

Orðaforði ritmálsins er svo miklu ríkari en orðaforði talmálsins. Þess vegna skiptir þetta svo miklu máli. Við erum farin að heyra enskar samræður í auknum mæli meðal nemenda okkar á göngum framhaldsskólans. Þá tala nemendur saman sem eru fæddir og uppaldir á Íslandi og eiga íslenska foreldra og hafa engin tengsl við enska tungu aðra en samfélagið sem þeir eru í. Þess vegna er svo mikilvægt að unga fólkið okkar hafi nægt lesefni. Þetta á ekki síður við um þann hóp sem ég kenni einnig, sem eru ungmenni af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku. Orðaforðinn sem þau nota í hinu daglega lífi, sem er fyrst og fremst „hvenær er matur“ og „hvenær á ég að fara að sofa“ og annað slíkt, er fátæklegur. Sá orðaforði eykst svo mikið ef krakkarnir lesa.

Léttlestrarbækur sem til eru eru mjög gjarnan of barnalegar fyrir ungmenni. Við megum ekki gleyma því að þarna er líka fullorðið fólk sem vill fá krassandi lesefni sem er hannað fyrir fullorðna en um leið með orðaforða þar sem markvisst er verið að kenna og auka orðaforða málnotendanna.

Íslenskukennarinn ég fagnar mjög frumvarpi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur.