149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra andsvarið. Það er alveg rétt, ég hafði veitt því athygli að stuðningnum er vissulega einnig beint að mögulegri rafrænni útgáfu bóka. Ég velti þá fyrir mér, og það er meira tæknilegt smáatriði, ef ég sem rithöfundur ætlaði að gefa bókina mína út sjálfur hvernig ég yrði skilgreindur í atvinnugreinaflokkun, væri ég útgefandi eða höfundur?

En það er ekki aðalatriðið. Ég endurtek það sem ég sagði áður að í því samhengi hef ég meiri áhyggjur af því hvort sú leið virki yfir höfuð. Ég er sannfærður um að hér sé atvinnugrein sem þarf miklu frekar að finna sér nýjan farveg heldur en að fá stórkostlegan stuðning frá ríkinu.

Ég hef ekki áhyggjur af framtíð hins ritaða máls en alveg ljóst er að líkt og hefur oft gerst áður er form þess að breytast verulega. Það getur vel verið að við verðum einfaldlega að sætta okkur við að það að geta lagt bókina okkar á náttborðið heyri til liðins tíma, nema þegar við kaupum okkur antíkbókmenntir. Það er ekki þar með sagt að ekki verði skrifað nóg heldur verður skrifað á öðru formi. Það er hluti af þeirri óhjákvæmilegu þróun sem við sjáum allt í kringum okkur.

Guð hjálpi okkur ef við eigum að hlaupa upp til handa og fóta og fara að niðurgreiða með ríkisfé allar þær atvinnugreinar sem munu eiga undir högg að sækja eða þurfa að fara í gegnum miklar umbreytingar í byltingunni sem við erum í miðju kafi í. Þess vegna held ég að skynsamlegra væri ef við viljum örva útgáfu vandaðs íslensks efnis að styðja skrifin á því beint en ekki endilega útgáfustarfsemina sjálfa.