149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég hafði engan sérstakan áhuga á að taka þessa umræðu upp aftur. Mér fannst hún fara mjög neðarlega og vera ósæmileg í alla staði. Það að hafa í útvarpsviðtali eða hvar sem það var bendlað forseta danska þingsins við skoðanir Hitlers (HHG: Ég var að útskýra þetta.) er óviðkunnanlegt sem og sú skýring Pírata að þeir hafi ekki getað mætt á hátíðarfundinn á Þingvöllum vegna þeirrar skoðunar sem hún hefði. Það hefur komið fram. Mér finnst eins og fólk sé komið út í horn í rökræðunni þegar það lætur svona. Það var fyrir neðan allar hellur hvernig þingmenn komu fram við þessa konu, hæstv. forseta þingsins, á Þingvöllum. Það er auðvitað allri þjóðinni ljóst og öll sú umræða sem fylgdi í kjölfarið er ykkur og þeim sem í þessu tóku þátt til háborinnar skammar.

En fólk getur nú lagast. Í síðustu viku bauð danska þingið til hátíðarfundar í danska þinginu út af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Þar mættu Píratarnir. Þá var nógu gott að mæta og skála við Piu Kjærsgaard (HallM: Ég skálaði reyndar ekki við hana.) og sitja undir ræðum hennar.

Ég verð bara að segja eins og er að ef fólk ætlar að vera á þessum slóðum er málstaðurinn ekki djúpur þegar gengið er út af fundi út af skoðunum hennar …(ÞSÆ: Draga þessi ummæli til baka.) (Gripið fram í.) Ég held að þú ættir að draga ummælin til baka um að ég sé þjófur áður en ég geri það. (Gripið fram í.)

(Forseti (SJS): Forseti biður um ró í salnum.)