149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með umræðuna og vil þakka sérstaklega hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að hafa frumkvæði að því að framkalla skýrsluna um leið og ég þakka ráðherra og fólki hennar fyrir hana.

Ferðaþjónustan hefur gjörbreytt efnahagslegu landslagi landsins og fært með sér aukna atvinnu og tekjur í ríkissjóð um leið og hún hefur orðið mörgum byggðum lyftistöng víða um land og felur í sér einhverja öflugustu byggðastefnu sem um getur. Við sem viljum að landið sé byggt erum mjög ánægð með það atriði.

Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt og enda þótt nokkuð hafi dregið úr vaxtarhraðanum, a.m.k. um sinn, má mikils af henni vænta. Ég ætla að leyfa mér að vísa í blessað sálmaskáldið því að „það varðar mest til allra orða að undirstaðan sé réttlig fundin“. Undirstaðan og lykilorðin varðandi þróun greinarinnar eru þolmörk ferðamannastaða og sjálfbærni greinarinnar. Þetta eru ekki orð út í bláinn. Þau orð hafa merkingu, raunhæfa merkingu. Íslensk náttúra er viðkvæm. Niðurnídd náttúruperla mun ekki draga að sér ferðamenn á næsta ári.

Hér hefur verið vikið að hinum félagslegu þolmörkum. Þeim er gjarnan lýst í fræðunum sem sérstakri kúrfu sem getur þróast með ýmsum hætti og væri æskilegt að fá mat á því hvar við erum stödd í því ferli. Það getur farið svo að ferðaþjónusta glati stuðningi fólks sem telur of nærri landinu og umhverfinu gengið. Reyndar verður mér stundum hugsað til Þingvalla þar sem kannski eru staddir ferðamenn á Hakinu sem hafa lagt á sig langa og erfiða ferð hingað til þess eins að njóta náttúrufegurðar svæðisins undir drynjandi gný frá þyrlum og flugvélum.

Rannsóknir eru lykilatriði í uppbyggingu og framþróun greinarinnar, rétt eins og aðrar atvinnugreinar hér hafa stuðst við rannsóknir. Við þekkjum það hvílíku grettistaki hefur verið lyft til að mynda í íslenskum sjávarútvegi á grundvelli rannsókna. Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey fyrir nokkrum árum var tíundað hvað sjávarútveginum hefði tekist, meira að segja við erfiðar aðstæður, að framkalla mikla framleiðniaukningu. Það gerist auðvitað í krafti rannsókna og nýrrar þekkingar.

Nauðsynlegt er að efla rannsóknir á alla lund í greininni. Nauðsynlegt er að halda áfram vinnu við svokallaða sjálfbærnivísa með það fyrir augum að mæla þolmörk.

Talandi um þolmörk, þolmörk innviða, hvar erum við stödd í því efni? Það er eðlilegt að vita þegar við erum komin á þann stað í umræðunni að við veltum fyrir okkur gjaldtöku af greininni, því að hún hlýtur að þurfa að standa undir umtalsverðum hluta af umbótum á samgöngukerfinu sem hún leggur svo mikið á. Þolmörk heilbrigðisþjónustu t.d. á Suðurlandi, hvar erum við stödd í þeim efnum?

Það verður ekki nógsamlega undirstrikuð nauðsyn rannsókna og aukinnar söfnunar gagna. Rannsóknir og upplýsingar reistar á traustum gögnum eru forsenda skynsamlegrar stefnumörkunar af hálfu stjórnvalda í samstarfi við greinina. Ég fagna orðum ráðherra um það efni og bind eins og hún vonir við að Ferðamálastofa eigi eftir að gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að rannsóknum í þeirri mikilvægu atvinnugrein.

Meginstefnan í ferðaþjónustu hlýtur að fela í sér að arðsemi af hverjum ferðamanni verði sem mest samhliða því að sem fæst spor verði skilin eftir í auðlindinni, eins og komist er að orði af þeim sem gerst þekkja í greininni.

Herra forseti. Að lokum vil ég hvetja til þess að starfsheiti leiðsögumanna verði lögverndað á grundvelli samræmdra krafna um menntun þeirra um leið og gerð verði krafa um að í ferð um landið verði viðurkenndir leiðsögumenn í för. Ég tel það hafa mikla þýðingu þegar rætt er um þolmörk ferðamannastaða og að auki vera til þess fallið að auka öryggi í ferðum um okkar fagra land.