149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

stuðningur við minkarækt.

[10:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og viðurkenni það að hann er miklu yfirvegaðri þegar hann er með skrifaða ræðu, það er gott.

Varðandi þetta mál þá brennur það mjög á loðdýrabændum. Það eru starfandi 17 eða 18 bú í landinu, 150.000 skinn í framleiðslu. Veltan er um 600–650 milljónir á ári og fóðurframleiðslan fer fram í tveimur fóðurstöðvum. Þunginn í þessu er í Skagafirði og síðan á Mið-Suðurlandi. Greinin hefur núna í allnokkur ár glímt við mjög mikla erfiðleika eða hrapandi verð á markaði. Að allra mati, eins og hv. þingmaður nefnir, er þetta gæðaframleiðsla. Vandinn er bara sá að verðið sem fæst fyrir afurðina stendur ekki undir framleiðslukostnaði og töluverður munur á verði á hvert skinn, sjálfsagt komið í 2.000–3.000 kr. í dag.

Þá er vandinn sá hvernig á að ráðast í að styrkja eða skjóta styrkari stoðum undir greinina. Við höfum átt viðræður við loðdýrabændur, ég og byggðamálaráðherra sem fer með yfirstjórn Byggðastofnunar. Þar hafa möguleikar á einhvers konar aðkomu hins opinbera verið ræddir. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um þetta enn þá. Ég hef engar fjárheimildir undir mínum málaflokki til þess að bregðast við og það hef ég gert loðdýrabændum fullkomlega grein fyrir, ef um það er að ræða. En ég vænti þess að við munum taka einhverjar ákvarðanir á næstu vikum. Ég get ekki tímasett það, virðulegur forseti, það liggur ekkert slíkt fyrir. Málið hefur verið rætt en engar ákvarðanir teknar svo ég svari hv. þingmanni beint út.