149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

fátækt.

[10:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær var baráttudagur gegn fátækt, baráttudagur til útrýmingar á fátækt. Hver var umræðan á Alþingi á þeim degi? Engin. Eina umræðan sem fór fram var undir störfum þingsins þegar ég tók til máls og fór með ljóð Steins Steinarrs um brauðið og grautinn.

Enn er þessi barátta, enn eru börn útilokuð frá mötuneytum grunnskóla.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum fátæktar þöggun? Hún neitar að sjá fátækt, hún neitar að hlusta á fátækt, hún neitar að tala um fátækt á baráttudegi gegn fátækt.

Það er verið að tala um vopnaskak NATO hér en á sama tíma er króna á móti krónu skerðing notuð sem fjárhagslegt vopn á öryrkja til að lemja inn í þá starfsgetumat, sem þeir hafa ekkert með að gera og vilja ekki. Hvernig getur það samrýmst stefnu Vinstri grænna ásamt þeim flokkum sem eru með þeim í ríkisstjórn sem lofuðu allir, þeir lofuðu því statt og stöðugt, að afnema krónu á móti krónu skerðingu? Það eru komin tvö ár síðan eldri borgarar fengu krónu á móti krónu skerðingu. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að standa við loforðið? Í fyrsta lagi 1. janúar 2020.

Ef þau geta ætla þau að troða starfsgetumati ofan í kokið á öryrkjum, starfsgetumati sem þeir hafa ekki fengið að koma neitt að og eiga bara að kyngja. Athugið það að margir, flestir sem fá krónu á móti krónu skerðingu, munu aldrei fara í starfsgetumat. Þetta starfsgetumat kemur þeim ekkert við.

Þess vegna spyr ég forsætisráðherra: Ætlar hún að sjá til þess að afnema krónu á móti krónu skerðingu?