149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

fátækt.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki boðlegt að tala hér um að ríkisstjórnin neiti að tala um fátækt, hlusti ekki á umræðu um fátækt, beinlínis þaggi niður umræðu um fátækt. Þetta er ekki boðlegur málflutningur, herra forseti. Þetta er eitt af stóru málunum sem við ræðum oft í þessum sal, ekki bara þingmenn stjórnarflokkanna heldur þingmenn allra flokka. Þingmenn allra flokka hafa látið sig þessi mál varða og ég hlýt að benda hv. þingmanni á það að það á ekki að tala niður þá umræðu sem hér fer fram um fátækt, um félagslegt réttlæti og jöfnuð þar sem ég hef ekki orðið vör við annað en að þingmenn allra flokka hafi látið til sín taka.

Hvað er ríkisstjórnin að leggja til, eins og ég nefndi áðan í fyrra svari, í tengslum við fjárlagafrumvarpið núna? Til að mynda skattbreytingar sem gagnast best hinum tekjulægri, hækkun persónuafsláttar umfram neysluvísitölu, hækkun barnabóta sem mun skipta mestu máli fyrir tekjulágar barnafjölskyldur, því að hv. þingmaður nefnir börn. Ég er sammála hv. þingmanni. Sá fjöldi barna í þessu samfélagi sem býr við fátækt er ólíðandi og þess vegna skiptir máli hvað við erum að gera en hv. þingmaður á ekki að koma hér og láta eins og aðrir neiti að tala um fátækt. Það er ekki svo.

Hv. þingmaður fór svo að ræða þann hóp sem hann situr í, eftir því sem ég best þekki, um málefni örorkulífeyrisþega þar sem sitja fulltrúar þingflokka, fulltrúar Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar, fulltrúar ráðuneytis og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Þar skiptir að sjálfsögðu máli að við sem hér erum skiljum þá stöðu að það eru ekki allir örorkulífeyrisþegar sem eiga þess nokkur færi að geta sótt sér tekjur á hinum almenna vinnumarkaði. Það kerfi sem við byggjum upp má ekki verða til þess að ýta fólki út á vinnumarkað sem ekki getur unnið vegna veikinda, örorku eða fötlunar. Það kerfi sem við byggjum upp má ekki verða til þess að við skerðum einstaklinga sem hugsanlega fá ekki vinnu (Forseti hringir.) þótt þeir geti hugsanlega sótt sér einhverja vinnu, þeir fá ekki vinnu. Að sjálfsögðu skiptir máli að það kerfi sem við byggjum upp stuðli að samfélagslegri þátttöku fólks í öllum þjóðfélagshópum og tryggi framfærslu, en það á ekki að snúast að mínu viti um að troða neinu ofan í kokið á neinum.