149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:37]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki bara ég sem er ósammála greiningu nefndarinnar heldur einnig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, höfum það á hreinu. Auðvitað eru fjárstreymisstýritæki höft, við erum t.d. að tala um 40% bindiskyldu í dag sem hefur verið lýst sem einhvers konar fjármunastýritæki en var aldrei ætlað sem almennt stýritæki. Það hefur meira að segja Seðlabankinn sagt, að mig minnir.

Nú er aðalatriðið þetta og spurning mín var einföld, ég vona að ég fái svar við henni í þetta skiptið: Um tvennt er að velja; annaðhvort haftafyrirkomulag sem stendur með hléum, eða að við göngum inn í eitthvert fyrirkomulag þar sem við bindum okkur við annan gjaldmiðil með einum eða öðrum hætti. Það eru einu valkostirnir, þ.e. svokallað sjálfstæði, þar sem við erum í höftum annað slagið, eða að binda okkur við annan gjaldmiðil. Það eru einu valkostirnir. Hvorn þeirra ætlar hæstv. forsætisráðherra að velja? Og hvernig réttlætir hæstv. forsætisráðherra það að viðhalda haftafyrirkomulagi?