149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðuna. Hún lýsti því ágætlega sem stendur í skýrslunni. En ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé ekki sammála mér í því að þessum ágæta starfshópi hafi verið of þröngur stakkur skorinn. Niðurstaðan er áframhaldandi stefna síðustu ára með sjálfstæðri peningastefnu Seðlabankans og íslenskri krónu.

Telur hæstv. forsætisráðherra að þær hugmyndir og tillögur sem nefndar eru í skýrslunni muni stuðla að því að heimili og fyrirtæki í landinu fái betri vaxtakjör, að peningastefnan verði þannig að kjör almennings muni batna og vera sambærileg við nágrannalöndin? Helsta markmið með hagstjórn í landinu á auðvitað að vera að bæta hag almennings, ekki satt? En peningastefnan er stór hluti af hagstjórninni og ætti þess vegna að beinast í sömu átt.

Rót vandans er að mínu áliti, og ekki bara mínu áliti, heldur mjög margra, krónan sjálf og þessi litli gjaldmiðill sem sveiflast við minnstu hreyfingar, hvort sem er hér innan lands eða utan.

Ég vil einnig spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji að Evrópusambandið eigi í gjaldeyrisvanda og að upptaka evru hafi valdið efnahagsvanda t.d. á Ítalíu, Portúgal eða Spáni. Því að ég skildi hæstv. forsætisráðherra þannig fyrr í dag.