149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:18]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt að skoða málin betur. Ég verð að leyfa mér að segja að það vekur alveg sérstaka undrun að sjá hvernig Evrópusambandið leitast við að gera Bretum allt til miska. Auðvitað er verið að senda út skilaboð til þeirra sem myndu leyfa sér að hugsa sér til brottfarar af þessum vettvangi.

Ég leyfi mér að vísa aftur til þess hvernig Grikkir voru nánast sviptir fullveldi sínu og sjálfstæði fyrir þá sök að hafa ratað í efnahagslegan vanda. Það er náttúrlega þvílík hörmungarsaga og ég leyfi mér bara að vitna til skáldsins: „Og úr því að þeir krossfestu þig, Kristur, hvað gera þeir við ræfil eins og mig?“