149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann minntist á að ég hefði gagnrýnt harkalega höfunda þessarar skýrslu og pólitísk tengsl þeirra. Ég vil ekki líta svo á að það hafi verið harkaleg gagnrýni. Þetta var bara vinsamleg ábending. Kannski er það bara tilviljun að þeir séu tengdir Sjálfstæðisflokknum sem eru höfundar skýrslna sem ríkissjóður borgar töluverðar fjárhæðir fyrir og við höfum séð undanfarið. Það er kannski bara tilviljun. Ég vil þó segja að meginhöfundur skýrslunnar, Ásgeir — man nú ekki hvers son hann er … (Forsrh.: Jónsson, sonur Jóns Bjarnasonar.) — Jónsson, takk fyrir það, hæstv. forsætisráðherra. [Hlátur í þingsal.] Þarna sjáum við önnur tengsl, þannig að það er kannski erfitt í okkar litla landi að hafa ekki einhver tengsl. En ég tel reyndar að þar fari mikill fagmaður og gagnrýnin beinist ekki að því. Þetta er kannski tilviljun, en rétt er að minnast á það. Ég sé að tíminn er liðinn þannig að ég verð að koma aftur í síðara andsvar.