149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, eða svarleysuna eftir atvikum. Eins og ég sé möguleika slíks sjóðs getur hann með tíð og tíma orðið akkeri í íslensku hagkerfi með svipuðum hætti jafnvel og lífeyrissjóðirnir þótt það kannski taki tíma, þ.e. mikið fé er bundið sem hefur tilteknar skyldur og má ekki hreyfa við nema á einhverjum tilteknum forsendum. Það er eiginlega það sem ég er að inna þingmanninn eftir.

Það er gagnlegt fyrir sveifluhagkerfi og auðlindahagkerfi eins og íslenska hagkerfið að negla niður nokkra hæla sem geta hjálpað okkur þegar verr árar.

Aðeins að tillögunum í heild. Þingmaðurinn má líta á það sem nokkurs konar yfirheyrslu áður en við förum yfir það í nefndinni, það er allt í lagi. Ég vil inna þingmanninn eftir tillögunni um Fjármálaeftirlitið. Mig minnir að tillaga númer þrjú eða fjögur, er ekki alveg með það í kollinum. Er hann sammála þeirri tillögu? Vill hann ganga örlítið lengra, þ.e. færa Fjármálaeftirlitið alveg yfir í Seðlabankann eða finnst honum nægjanlegt að fara eftir tillögum starfshópsins?