149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:45]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta andsvar. Og Kína, ja það er nú það. Útflutningshagkerfi, já vissulega. En það er kannski vandamál Kínverja að þar er komið hagkerfi sem tók við af handstýrðu hagkerfi sem var eins konar áætlunarbúskapur og er þá einhvers konar ríkiskapítalismi af hæstu gráðu, áfram handstýrður. Þeir ná árangri, bæði í framleiðslu innan lands og í útflutningi, ganga ansi hart fram, hirða jafnvel hugmyndir og nota alls konar aðferðir til að ná markmiðum sínum, m.a. að ganga inn í efnahagskerfi annarra landa með alls konar tilboð. Lexíurnar eru kannski einhverjar fyrir okkur en stóra vandamálið þar er kannski það að við erum smáríki með örmynt, þeir eru að verða eitt af stærstu hagkerfum heims með mynt sem vegur dálítið meira en krónan okkar. Ég sé ekki fyrir mér hvaða lexíur eru þarna. Kostnaðurinn sem alþýða Kína þarf að greiða fyrir þennan útflutningsrisa er ekki par glæsilegur, hvað varðar mannréttindi og annað slíkt. Ég hef átt þess kost að ferðast um afskekkt héruð í Kína, bæði Xinjiang og Tíbet, fyrir utan það að vera í Peking. Miðað við auðlindapólitík, umhverfispólitík og mannréttindi í stórum hluta af Kína mundum við alla vega ekki taka þá lexíu nema sem neikvæða.