149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:47]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir sumt af þessu en ég veit ekki hvort peningastefnan sem slík sé endilega eitthvað til að setja í samhengi við mannréttindi. Ef svo er þá held ég að ræða þurfi það aðeins nánar. En það er hins vegar tilfellið að þarna er einmitt, eins og hv. þingmaður nefnir, gríðarlega stórt hagkerfi sem ákveður, þrátt fyrir sinn öfluga gjaldmiðil, að tengja hann í praxís við tvo aðra mjög stóra gjaldmiðla til þess að ná fram ákveðnum stöðugleika í verðlagi á útflutningsvörum sínum. Fyrir vikið, einmitt vegna þess að mikið innflæði er af dollurum og evrum til Kína, hafa Kínverjar náð að byggja upp gjaldeyrisvaraforða sem mig minnir að sé í kringum 3.000 trilljón dollarar, eða 3.000 milljarðar dollara, ef ég er ekki að fara með ranga tölu. Það er gríðarlega góður gjaldeyrisvaraforði og maður gæti ímyndað sér að hægt væri að gera svipaða hluti á Íslandi ef við værum með stöðugra gengi. Þegar hlutirnir ganga vel og útflutningur er mikill gætum við verið að safna í sarpinn til þess að geta frekar slegið á sveiflur lengra niður veginn. Ég vona mjög innilega að hægt sé að viðhalda einhverri slíkri pólisíu án þess að þurfa að fara út í hrikalega mannréttindaánauð vegna þess að það ætti ekki að vera nauðsynlegt. Ýmis önnur lönd hafa farið svipaða leið, eins og ég hef rakið hér fyrr í dag, án þess að vera með hrikalega vonda mannréttindastefnu.