149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vísa í hv. þingmann þegar hann segir að ekki skipti máli hvaða stefna er valin heldur bara það að fylgja henni, sem endurspeglar það sem sagt er í skýrslunni. En hvað vitum við um það þegar samanburðinn vantar? Við getum ekkert fullyrt um það þegar vantar útlistun, útskýringu og kostnaðargreiningu á öllum hinum valkostunum sem eru í boði, þegar ekki einu sinni er farið yfir alla valkostina sem rammi skýrslunnar átti að miða að. Þetta er ákveðin taktík til að slá ryki í augu lesenda því að augljóslega er mismunandi kostnaður og gallar við hvern valmöguleika. Fyrst hv. þingmaður vísaði í litlu gulu hænuna sem gerði allt þá gerði þessi litla gula hæna ekki allt. Hún skoðaði ekki alla valmöguleika.