149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góða og ítarlega umræðu um þessa skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu.

Margt gott hefur komið fram í umræðunni. Það eru nokkrar ályktanir sem ég dreg af þeirri umræðu. Ég átta mig á því að ýmsir hafa gert athugasemd við það að skýrslan sé um það sem hún er en ekki um eitthvað annað, að hér sé ekki fjallað um valkostinn við Evrópusambandsaðild og upptöku evru heldur eingöngu valkosti í peningastefnu út frá því að krónan sé undirstaða. Eins og ég fór yfir í upphafsmáli mínu var það erindisbréf fyrrverandi ríkisstjórnar sem mótaði vinnu nefndarinnar þannig að ég get lítið gert með þessar gagnrýnisraddir, jafnvel þó að þær komi frá aðilum að þeirri ríkisstjórn. Það hefur verið útskýrt hvernig á því stendur. Þetta er sú skýrsla sem er til umræðu og mér finnst hún að mörgu leyti góð. Ég fagna því að ég heyri það frá ýmsum hv. þingmönnum að þó að þeir hefðu viljað sjá önnur umfjöllunarefni í skýrslunni fagni þeir þeim tillögum sem hér liggja fyrir, margir hverjir. Það er gott. Það er leiðarvísir fyrir ríkisstjórnina til að vinna áfram, til að mynda í þeirri frumvarpavinnu sem er fram undan.

Ég geri hins vegar athugasemd við það, því að ekki hef ég á móti því að við ræðum andstæðar skoðanir, tökumst á og gagnrýnum, gagnrýnum hvert annað, gagnrýnum sjónarmið, og ef einhver er lærdómur hrunsins er hann sá að vera gagnrýninn á stjórn efnahagsmála, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar. Mér finnst því kúnstugt þegar fólk talar um að gagnrýnin umræða snúist um að þagga niður umræðu, að ríkisstjórnin vilji þagga niður umræðu um Evrópusambandið. Ég vil alls ekki þagga hana niður. Ég vil einmitt eiga þá umræðu og ég vil ræða efnahagsstjórnina í Evrópusambandinu og ég vil ræða stefnu Evrópusambandsins. Henni fylgja kostir og gallar eins og ég hef margoft ítrekað hér í dag og áður. Ég get ekki tekið undir með þeim þingmönnum sem tala um að hér sé verið að þagga eitthvað niður. Það er bara alls ekki þannig. Ég fagna umræðu og við eigum einmitt að fagna henni öll. Við eigum að muna lærdóminn af efnahagshruninu. Og gagnrýni er mikilvæg. Hún kemur okkur áfram veginn. Þannig er nú það.

Skýrslan er um margt gagnrýnin á 100 ára sögu Íslendinga þegar kemur að peningastefnu. Það breytir því ekki og það finnst mér líka áhugavert að heyra að hér hafa sumir hv. þingmenn talað um þessa hörmungarsögu fullveldisins, sömu hv. þingmenn og ég hef oft heyrt tala um þær miklu framfarir sem orðið hafa á Íslandi í eitt hundrað ár. Eitthvað hefur okkur lánast að gera rétt á þessum 100 árum. Hins vegar er áhugavert að draga þann lærdóm af skýrslunni að hér hefur ýmislegt verið reynt þegar kemur að peningastefnu. Hér hefur til að mynda verið reynt, eins og bent er á í sögukaflanum — það var nú einhver hv. þingmaður sem gerði athugasemd við það að hér væri þessi saga rakin — ég tel einmitt að sögukaflinn sé hvað mikilvægastur fyrir þessa skýrslu, því að hann setur þetta allt í heildarsamhengi. Rifjum upp af hverju t.d. norræna myntbandalagið gekk ekki. Það kann að vera að fólk setji það ekki í samhengi við myntráð dagsins í dag en það voru nákvæmlega sömu orsakir og við greinum í ýmissi myntsamvinnu dagsins í dag, þ.e. ónógt samstarf um stefnu í ríkisfjármálum og skattamálum sem varð til þess að norræna myntbandalagið datt upp fyrir. Við getum svo sannarlega lært af sögunni.

Það er það sem nefndin gerir. Ég tek fram að ég valdi ekki aðilana í hana, en ég tel þá alla vera fagaðila sem hafa unnið með þeim hætti, fyrir utan þá erlendu sérfræðinga sem voru kallaðir til. Lærdómarnir eru ýmsir og mér finnst mikilvægt að við vinnum áfram að því verkefni sem ég tel að hafi staðið yfir allt frá hruni, að styrkja umgjörð peningastefnunnar, sem ég nefndi í fyrri ræðu minni.

Hvað er búið að vera að gera? Jú, það er allt önnur umgjörð um fjármálakerfið á Íslandi í dag en var fyrir tíu árum. Það er allt önnur umgjörð um efnahagsstefnuna en var fyrir tíu árum með tilkomu fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar. Eigum við ekki að halda áfram á þeirri braut? Ég heyri ekki önnur sjónarmið frá þingmönnum en einmitt að nýta þessa lærdóma.

Hér hafa menn tekist á um húsnæðisliðinn í vísitölu. Mér hefur þótt það áhugaverð umræða en ég vil ítreka það sem ég sagði líka fyrr í dag, við þurfum að ljúka þeirri skoðun á því að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, sem ég veit að ýmsir hv. þingmenn hafa talað fyrir. Fyrir því eru færð góð rök í skýrslunni. Ekki síður finnst mér að við þurfum að ræða þá aðferð sem er viðhöfð hér á landi við útreikninga á þessum húsnæðislið, sem ýmsir hv. þingmenn gerðu líka að umtalsefni, og er ólík því sem til að mynda tíðkast í Svíþjóð.

Ræðum um Evrópusambandið, segja sumir hv. þingmenn, og ég segi: Ræðum það endilega, ræðum þá allar staðreyndir. Hér var bent á að meiri hluti landsmanna í nýlegri könnun væri hlynntur upptöku evru. Ræðum hina hliðina sem kom fram í sömu könnun, nákvæmlega sömu könnun, sem er glæný og var gerð núna í október. Meiri hluti landsmanna, þrátt fyrir að vera hlynntur upptöku evru, myndi hafna inngöngu í Evrópusambandið, eða 57,3% eru andvíg inngöngu í Evrópusambandið. Sömuleiðis er meiri hluti landsmanna andvígur því að taka upp aðildarviðræður við ESB. Þannig að þegar við ræðum um Evrópusambandið skulum við hafa alla myndina undir. Það er það sem ég er að segja.

Það er ekki nóg að ræða bara peningastefnu eða gjaldmiðil þegar við tölum um Evrópusambandið. Við þurfum að taka heildarmyndina og ræða hana. Óttast ekki umræðuna. Óttast ekki gagnrýnina og vera tilbúin til þess að ræða hvaða kostir og gallar því myndu fylgja. Sökum ekki aðra um þöggun af því að þeir hafa ekki sömu skoðun og við sjálf. Mér finnst enginn bragur á því.

Mér fannst það áhugavert sem kom fram hjá einhverjum hv. þingmönnum sem varðaði stöðu nýsköpunargreina og sprotafyrirtækja undir núverandi peningastefnu. Þá fyndist mér áhugavert að fá á því frekari greiningu hvað hafi mest áhrif á nýsköpunarfyrirtæki. Nú höfum við séð hugverkageirann vaxa á Íslandi, ekki síst vegna þeirra fjárfestinga sem var ráðist í í kringum sóknaráætlun þáverandi ríkisstjórnar 2012, þegar farið var með markvissum hætti að fjárfesta í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum, sem hefur beinlínis skilað sér í aukningu í hugverkageiranum á Íslandi.

Horfum til þess að þegar skoðuð er samkeppnishæfni Íslands samkvæmt því sem kallað er á ensku, þótt mér leiðist slettur á erlendum málum úr þessum stól, „Global Competitive Index“, með leyfi forseta, hefur Ísland farið upp um fimm sæti á þremur árum. Hvað gerir það að verkum að við erum á uppleið á þessum lista? Þurfum við ekki að huga betur að öðrum þáttum í umhverfi nýsköpunarfyrirtækja og sprotafyrirtækja? Þá vil ég minna á þá stefnu núverandi ríkisstjórnar að búa sérstaklega vel að þessum fyrirtækjum, annars vegar með því að auka stuðning við rannsóknir og þróun og hins vegar með beinni fjárfestingu í nýsköpun í gegnum þjóðarsjóðinn sem sömuleiðis var nefndur fyrr í dag.

Þá kem ég að stóru myndinni sem hefur kannski ekki verið mikið rædd, þó af einhverjum hv. þingmönnum, sem er svo áhugavert að lesa um í sögulega yfirlitinu í þessu riti. Hver er ástæðan fyrir því að hagsagan hefur verið brokkgeng á Íslandi? Jú, einn þáttur af lærdómunum er einmitt einhæft atvinnulíf. Síldarbrestur. „… að svikull er sjávarafli“ segir hér á einum stað í skýrslunni.

Hvernig ætlum við að vinna úr því? Gerum við það með því að tala eingöngu um peningastefnu? Nei, það hljótum við að gera með því að tala um atvinnustefnu, tala um það hvernig við getum skotið fjölbreyttari stoðum undir íslenskt efnahagslíf og þar með gert okkur óháðari gagnvart ytri sveiflum.

Þess vegna segi ég: Ef við viljum horfa til framtíðar, lengri framtíðar, og huga að því hvernig við ætlum að byggja upp íslenskt efnahagslíf til lengri framtíðar er mikilvægasta fjárfestingin sem við getum ráðist í annars vegar menntun og hins vegar rannsóknir og nýsköpun. Auka þekkingarsköpun og hugvit í öllum geirum samfélagsins, reiða okkur meira á hugvitið en auðlindirnar sem hér hafa líka verið nefndar, breyta samfélaginu yfir í að vera hugvitsdrifið hagkerfi en ekki auðlindadrifið. Það er framtíðarsýnin sem mun skipta svo miklu máli um peningastefnuna. Því að peningastefnan snýst ekki aðeins um gjaldmiðil. Gjaldmiðillinn er tækið en hagstjórnin þarf að hanga á fleiri þáttum.

Ríkisfjármálin. Hér hefur verið nefnt að sá rammi hefur auðvitað gerbreyst á undanförnum árum. Sama þó að einhverjir geri lítið úr þeim ramma og að um hann hafi verið deilt voru allir og eru sammála um að það skipti máli að gera langtímaáætlanir í ríkisútgjöldum.

Vinnumarkaðurinn. Mínar vonir standa til þess að við komum samtali aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í miklu fastara form. Við höfum þegar ráðist í það með reglubundnum fundum þessara aðila. Ég vil formgera þá, í takt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.

Peningastefnan. Þar þurfum við að styrkja rammann en undirstaðan (Forseti hringir.) er auðvitað atvinnulífið og það þarf að verða fjölbreyttara og þar getum við stjórnmálamenn svo sannarlega haft áhrif.