149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

mótun klasastefnu.

28. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun klasastefnu. Umræðan sem fór fram á undan og það hvernig hæstv. forsætisráðherra lauk erindi sínu um endurmat peningastefnu og einhæft atvinnulíf, síldarbresti, og að lausnin væri í rannsóknum og þróun, menntun og atvinnustefnu er algerlega samofið því máli sem ég mæli fyrir.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs sem er í gildi 2017–2019 þar sem markmið nýrrar klasastefnu verði að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar á markvissari hátt en hingað til, að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs, efla nýsköpun, efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar og efla hagsæld.

Enn fremur er lagt til að ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2019. Ég tel slíka stefnumótun getað skilað miklum ávinningi fyrir atvinnulífið, nýsköpun og ekki síst þegar við skoðum uppbyggingu atvinnu í tengslum við nýtingu auðlinda um landið gervallt og markvissari nýtingu fjölmargra sjóða sem ætlað er að efla rannsóknir og nýsköpun, hvort sem um ræðir vísindamenn innan menntageirans eða verkefnadrifna sjóði. Við getum kallað það innlegg í markvissari byggðastefnu.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að málið var áður flutt á 144., 145. og 146. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Af því að lagt er til að klasastefna verði mótuð í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, sem vísað er til í þingsályktunartillögunni í tilvísun eitt, ætla ég að lesa það sem þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Til að viðhalda þeim lífsgæðum sem landið hefur að bjóða þarf því að sækja fram, vinna þvert á fræðigreinar og starfssvið, horfa til þess sem best gerist erlendis og auka sköpun verðmæta um leið og þjónusta samfélagsins er efld.“

Tillagan sem við ræðum, um opinbera klasastefnu, styður vel þær áherslur sem koma fram í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs um vel ígrundaða stefnumótun og mikilvægi slíkrar stefnumörkunar þar sem upplýsingavinnsla og hagtölugerð er forsenda vandaðrar stefnumótunar og til aukins skilnings á rannsóknar- og nýsköpunarkerfinu, auknum sveigjanleika þess til að fylgja árangri eftir og markvissari ákvörðunartöku stjórnvalda, stofnana eins og háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja.

Á blaðsíðu níu í sömu skýrslu segir enn fremur, er varðar rannsóknir og nýsköpun í heimi örra breytinga og áskorana, með leyfi forseta:

„Samfélög í dag standa frammi fyrir flóknum, hnattrænum áskorunum á sviði t.d. umhverfis, loftslags, heilsu, orku, fæðu, fólksflutninga og öryggis. Mikilvægt er að fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum og vísi veginn í átt til árangursríkra lausna.

Slíkar lausnir krefjast oft umfangsmikils samstarfs þvert á fræðigreinar og á milli háskóla, stofnana og fyrirtækja. Til að ný þekking nýtist samfélaginu verður hún að hafa áhrif til breytinga, t.d. í stefnu stjórnvalda, með lagasetningu, með breyttu verklagi fyrirtækja og stofnana eða með breyttri hegðun fólks. Í samfélagslegum áskorunum felst töluverð óvissa því erfitt er að segja fyrir um áhrif þeirra og hvernig best sé að bregðast við. Skýr framtíðarsýn og markviss fjárfesting í þekkingu eykur möguleikana jákvæðum árangri og farsælli aðlögun að breyttum aðstæðum.“

Sú tillaga sem við ræðum er einmitt til þess fallin. Í aðgerðaáætluninni er komið inn á þær samfélagslegu áskoranir að efla þurfi þverfaglegt samstarf um rannsóknir og nýsköpun með þátttöku háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Dæmi um slík áherslusvið er að finna í nágrannaríkjum okkar þar sem tekist er á við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir; breytingar í hafinu, loftslagsbreytingar, samfélagsþátttöku og lýðræði, umhverfisvænar borgir og nýja tækni. Markmiðið með því öllu saman er að efla forgangsröðun í fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun, m.a. í gegnum markáætlun og innviðasjóð, og samræma betur alþjóðlegt samstarf stjórnvalda um rannsóknir og nýsköpun á evrópskum og norrænum vettvangi.

Þetta er í raun og veru kjarninn í hugmyndafræði klasastarfs og fellur mjög vel að því sem fram kemur í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

Skilgreining Nýsköpunarmiðstöðvar á klasa er landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem bæði eiga í samkeppni og í samvinnu. Þetta er að finna í tilvísun tvö í tillögunni, virðulegi forseti.

Í tillögunni er jafnframt lögð áhersla á að líta til alþjóðlegrar reynslu og þekkingar á því sviði. Í greinargerðinni kemur fram að ráðgert er að við vinnuna verði litið til reynslu Dana, Norðmanna og þeirra þjóða sem lengst eru komnar í mótun opinberrar klasastefnu. Gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin skili skýrslu, eins og ég kom inn á áðan, og í þeirri skýrslu er mikilvægt að tekin sé saman sú reynsla sem hefur safnast upp, ég nefni Noreg, Danmörku og Evrópusambandið sem hefur unnið að klasastefnu í áratugi. Mjög æskilegt væri að það kæmi fram í skýrslunni.

Ýmsar rannsóknir og skýrslur staðfesta að klasasamstarf er vænlegt tæki til að efla nýsköpun og samkeppnishæfni smærri og meðalstórra fyrirtækja. Klasasamstarf hefur því í auknum mæli verið nýtt til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar um allan heim og til að efla samkeppnishæfni fyrirtækja atvinnugreina, landsvæða og þjóða. Mikil áhersla er lögð á nýsköpun í nútímaklasastjórnun, enda skiptir nýsköpun sköpum í langtímauppbyggingu atvinnugreina.

Hugmyndafræðin er í sjálfu sér þekkt hér á landi og Nýsköpunarmiðstöð Íslands er leiðandi aðili á sviði rannsókna og þróunarstarfs og hefur gefið út leiðbeiningarhandbók um klasastjórnun, sem er að finna í tilvísun þrjú í tillögunni. Það hafa reyndar ýmis góð klasatengd verkefni litið dagsins ljós, bæði að frumkvæði hins opinbera en þó fremur í atvinnulífinu, sem við köllum sjálfsprottna klasa, á borð við sjávarklasann, jarðvarmaklasann og ferðaklasann, svo að ég nefni nokkra sem hafa náð nokkuð góðum árangri og sannað gildi sitt. Stefna ætti að aukinni áherslu á samvinnu milli rannsóknastarfs og þeirra klasa sem þegar hafa náð fótfestu og á að nýta þann grunn. Ég get nefnt dæmi um jarðvarmaklasann sem hefur starfað hér hvað lengst.

Hvað getur sprottið af svona klasastarfi? Við höfum þrisvar sinnum haldið risastórar alþjóðlegar ráðstefnur sem hafa farið stækkandi og sem dæmi er alþjóðlega jarðvarmaráðstefnan sem haldin var í Hörpu 2016 um fjölnýtingu jarðvarmans. Hún er mjög gott dæmi um hvað getur sprottið á slíkum vettvangi og í samvinnu fyrirtækja í milli og stofnana og fræðasamfélags. Á ráðstefnunni voru fyrirlesarar á borð við Michael Porter. Þar voru 1.000 gestir frá 40 þjóðum að deila þekkingunni. Með ráðstefnunni hefur Íslandi eða íslenska jarðvarmaklasanum tekist að byggja Ísland upp sem helsta umræðuvettvang jarðvarma og endurnýjanlegrar orku á heimsvísu.

Okkur tókst síðan í kjölfarið að fá alheimsráðstefnuna, sem er haldin á fimm ára fresti, í samkeppni við lönd eins og Síle, Þýskaland Holland, Kenía, Filippseyjar og Bandaríkin. Sú ráðstefna fer fram hér 2020.

Ef hið opinbera markar ekki stefnu og tekur ekki þátt í verkefnum eins og því förum við á mis við tækifæri og hætta er á, ef slíkur stuðningur og skuldbinding er ekki fyrir hendi, að slík verkefni fjari út.

Þetta er dæmi um það sem getur unnist í klasavinnu þar sem þekking kemur saman úr mörgum áttum, úr fræðasamfélagi, frá stofnunum, hinu opinbera, úr atvinnulífinu.

Ég nefndi Danmörku og Noreg þar sem unnið hefur verið með klasastefnu. Norðmenn skilgreina þrenns konar klasaform í klasastefnu sinni, sem er gefin út. Hæstv. forsætisráðherra nefndi atvinnustefnu. Við höfum ekki enn þá komið með atvinnustefnu en þetta er auðvitað samofið atvinnustefnu og gæti vel átt heima í þeirri vinnu eða sem hluti af atvinnustefnu.

Norðmenn skilgreina héraðsklasa sem einstök landsvæði sem hafa styrk umfram önnur. Við verðum að skilgreina allar auðlindir, styrkleika og veikleika eftir svæðum. Með opinberum, faglegum og fjárhagslegum stuðningi og mótframlagi frá fyrirtækjum og atvinnulífi á svæðunum sammælast menn þar um að einbeita sér að uppbyggingu atvinnulífs í kringum atvinnugreinar á svæðinu og skylda starfsemi.

Norðmenn skilgreina landsklasa sem samvinnu ólíkra klasa í sömu atvinnugrein þar sem styrkja má innviði klasasamstarfs sem bæti starfsskilyrði heildarinnar á ólíkum sviðum og í nýsköpun, menntun og markaðsmálum stjórnenda, upplýsingum o.fl. Síðan eru Norðmenn með alþjóðlega klasa þar sem þeir eru í fararbroddi í heiminum, í olíuvinnslu, í siglingum og fleiri greinum. Það er markvisst hlúð að þeim lykilatvinnugreinum til að auka samkeppnishæfni Noregs, bæði erlendis og innan lands, í krafti klasasamstarfs.

Danir tóku sömuleiðis upp opinbera klasastefnu árið 2013 en þeir, líkt og Norðmenn, skipta klösum í héraðs-, lands- og alþjóðlega klasa. Danska mennta- og vísindaráðuneytið gaf út nýsköpunarstefnu í desember 2012 þar sem framtíðarsýn danskra stjórnvalda er að styrkja samvinnu og smíða brýr milli vísindarannsókna, menntunar og nýsköpunar í atvinnulífinu. Lausnir á sviði nýsköpunar eiga að vera lykill að vexti og hagsæld, eins og þar kemur fram.

Þær áherslur sem ég vísa til og koma fram í skýrslu danska menntamálaráðuneytisins eru ekki ósvipaðar þeim sem koma fram í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs. Í skýrslunni er athyglisverð nálgun á nýsköpun þar sem segir að fólkið sé skapandi og atvinnulífið og fyrirtækin drifkrafturinn sem umbreyti þeirri nýsköpun í aukin verðmæti og atvinnutækifæri. Til að svo megi verða þurfi að leggja áherslu á nýsköpun í atvinnulífinu með öflugri stefnumótun.

Áhugasamir finna þá nýsköpunarstefnu í tilvísun fjögur í þingsályktunartillögunni.

Í dönsku fjárlögunum fyrir árið 2015 náðist sátt milli allra þeirra ólíku stjórnmálaflokka sem þá áttu sæti á danska þinginu og byggist hún í raun á þeirri stefnu þar sem sett var fram ítarleg klasastefna sem ein af lykilstoðum nýsköpunarstefnunnar. Ný og uppfærð stefna tók gildi í Danmörku fyrir árin 2016–2018 og hana lét ég fylgja í tilvísun fimm í tillögunni fyrir áhugasama.

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillaga sú sem við ræðum, um mótun klasastefnu, er einmitt ætluð til að móta farveg vinnu við eflingu nýsköpunar og atvinnulífs vítt og breitt um Ísland. Með opinberri klasastefnu er hægt að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs í þágu verðmætasköpunar sem leiðir af sér aukna framleiðni og hagsæld, líkt og annars staðar hefur verið gert. Ég nefndi Noreg og Danmörku sem dæmi en það má leita fanga víðar.

Ég tel afar mikilvægt að við lítum til alþjóðlegrar reynslu sem finna má af slíkri opinberri stefnumótun. Ég tel hana til þess fallna að efla nýsköpun, auka samkeppnishæfni atvinnugreina á landsvísu og alþjóðlega auk þess að vera farvegur fyrir aukna samvinnu skóla, rannsókna og atvinnulífs. Hún mun einnig leiða til þess að við ráðstöfum fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar á markvissari hátt.

Með mér á tillögunni eru hv. þingmenn Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, og Halla Signý Kristjánsdóttir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni gangi tillagan til hv. atvinnuveganefndar.