149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:40]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða athyglisvert mál og snúið mál og þessi vandi hefur, eins og fram hefur komið í máli fyrri hv. ræðumanna, legið fyrir um hríð.

Hér togast á annars vegar þarfir notenda þjónustunnar og hins vegar réttindi starfsfólks og verkefnið er þá að samhæfa þetta tvennt þannig að hvort tveggja sé haft í heiðri og það er mjög mikilvægt að hvort tveggja sé haft í huga. Það er mikilvægt að hafa í huga að hér er um að ræða starfsumhverfi og starf sem hefðbundnir verkferlar nái kannski ekki alveg yfir að öllu leyti. Þetta er starf sem er ólíkt öðrum störfum. Þetta er ekki afmarkaður tiltekinn vinnustaður eins og við kannski flest eigum að venjast heldur fylgir vinnustaðurinn þeim sem þjónustunnar nýtur og vinnustaðurinn er þar af leiðandi úti um allt. Það gildir svipað um vinnutímann. Það er erfitt að negla hann niður vegna þess að sumt af því fólki sem hefur þessi störf með höndum vill kannski vinna yfir tiltekinn tíma og eiga svo frí og þessar afdráttarlausu reglur um hvíldartíma eigi ekki alltaf við heldur má hugsa sér að þetta sé samkomulagsatriði þess sem þjónustunnar nýtur og þess sem innir hana af hendi.

Það verður að leggja áherslu á að þetta starf er ólíkt öðrum störfum en það er engu að síður mjög mikilvægt að tryggja réttindi þeirra sem þjónustunnar njóta og þeirra sem hana inna af hendi. Það er líka mjög mikilvægt að það sé á hreinu hver á að borga.