149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[15:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um ríkisskuldabréf, nr. 51/1924. Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og fór undirbúnings- og greiningarvinna vegna þess fram í samstarfi við Seðlabanka Íslands sem sinnir lánaumsýslu ríkissjóðs, samkvæmt samningi milli bankans og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, á grundvelli heimildar í 6. gr. laga um lánasýslu ríkisins, nr. 43/1990.

Með frumvarpinu er lagt til að lög um ríkisskuldabréf, nr. 51/1924, falli úr gildi, enda hafa nýrri lög um fjármögnun ríkissjóðs leyst þau af hólmi, samanber lög um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs, nr. 79/1983, og lög um lánasýslu ríkisins, nr. 43/1990.

Frumvarpið felur aðeins í sér eina efnislega breytingu frá gildandi rétti. Hún er sú að ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga um ríkisskuldabréf, um að ríkisskuldabréf skuli ekki gefa út til lengri tíma en 25 ára, fellur úr gildi. Verði frumvarpið að lögum mun kostum ríkissjóðs við skuldastýringu fjölga og svigrúm til áhættudreifingar aukast. Núverandi stefna í lánamálum gerir þó ekki ráð fyrir að slíkur möguleiki verði nýttur nema ef sýnt þætti að slík útgáfa hefði verulega hagkvæmni í för með sér fyrir ríkissjóð.

Breytingin gerir ríkissjóði því kleift að kanna hvort tryggja megi að lánsfjárþörf og fjárhagslegum skuldbindingum ríkissjóðs sé mætt með lægri tilkostnaði en áður með útgáfu lengri ríkisskuldabréfa en nú eru heimil. Ef sú verður raunin má reikna með að vaxtagjöld ríkissjóðs lækki.

Samfélagslegur ávinningur felst í því að mögulegt verði að tryggja hagkvæmari fjármögnun ríkissjóðs og lækka vaxtagjöld sjóðsins og búa þannig til svigrúm til lægri skatta eða aukinnar opinberrar þjónustu. Þyki útgáfa ríkisskuldabréfa til lengri tíma en 25 ára ekki líkleg til að tryggja hagkvæmari fjármögnun ríkissjóðs mun ríkissjóður ekki gefa út slík bréf. Breytingin ætti því ekki að hafa í för með sér neinn kostnað.

Frumvarpsdrög voru birt til umsagnar 14. ágúst 2018 í samráðsgátt Stjórnarráðsins og veittar voru tvær vikur til að skila umsögnum. Engin umsögn barst.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.