149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vil svara því til fyrst og fremst að ég er sammála hv. þingmanni um að það ættu að vera ákveðin brot sem viðkomandi mætti aldrei hafa framið til að fá lögmannsréttindi. Ég lagði það til á hinu örstutta þingi 2017 en samstaða náðist ekki um það frumvarp. Í því frumvarpi var sem sagt lagt til að til þess að verða lögmaður mætti viðkomandi ekki hafa brotið kynferðislega á börnum, ekki hafa framið manndráp og ekki hafa framið alvarleg kynferðisbrot. Það voru þessi skilyrði sem ég setti sem grunnskilyrði fyrir því að viðkomandi gæti fengið lögmannsréttindi, að þeir hefðu ekki brotið af sér með þessum hætti. Svo voru aðrar breytingar til í því líka en ekki náðist samstaða um það og þess vegna spyr ég svona oft út í þetta núna, m.a. vegna þess að þá var ítrekað tekið til, m.a. af hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, að það þyrfti að líta til miklu fleiri starfsstétta en einungis lögmanna og miklu fleiri starfsstétta en þetta mál um óflekkað mannorð og uppreisn æru næði yfir. Við þyrftum að horfa heildstætt yfir sviðið og skoða allar starfsstéttir jafnt.

Þetta vantar í þetta frumvarp og þess vegna er ég enn að velta fyrir mér hvers vegna það hafi tekið svona langan tíma að gera það sem ég kalla „Find and Replace“ eða „Finna og setja í staðinn“ í word en það er í raun og veru það sem þetta frumvarp gerir, það fer í gegnum allan lagabálkinn á Íslandi og finnur orðin „óflekkað mannorð“ og setur í staðinn einhverja klausu. Hvernig það gat tekið eitt og hálft ár skil ég ekki. Ég tek undir með hv. þingmanni, það þarf að skoða lögmenn sérstaklega og mögulega þurfa þeir ekkert endilega að fá lögmannsréttindi hafi þeir gerst sekir um refsivert athæfi yfir höfuð.