149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í embætti mínu sem dómsmálaráðherra hitti ég fjölmarga, tek á móti fólki mjög reglulega, tugum manna, það skiptir jafnvel hundruðum frá því ég tók við embætti. Ég hef ekki að fyrra bragði upplýst um þá fundi og mun ekki gera það. Ég verð þó að segja að mér sárnaði það nokkuð þegar ég hafði átt fundi með einhverjum í tengslum við þessa umræðu um uppreist æru á sínum tíma að stuttu síðar var því haldið fram að menn fengju engar upplýsingar úr ráðuneytinu. Það var eftir að hafa setið með mér drykklanga stund og starfsmönnum ráðuneytisins og fengið þær upplýsingar sem beðið var um í framkvæmd þessara mála. (ÞSÆ: Um meðmælendur?) Það kann að vera að það hafi ekki verið beðið um meðmælendur.

Nú greini ég auðvitað ekki frá því sem fram fer á milli mín og annarra sem koma á minn fund, hvort sem þeir óska eftir fundi eða hvort sem ég óska eftir fundi með öðrum, að þessu leyti. Ósk um málsskjöl í dómsmálaráðuneytinu, þar á meðal í þessu máli sem hv. þingmaður nefnir og varð tilefni til þessarar umræðu um sumarið, var afgreidd eins og aðrar beiðnir um málsskjöl er varða einkamálefni manna og sem geta innihaldið upplýsingar sem ekki er rétt að gera opinbert.

Það liggur alveg fyrir að ef dómsmálaráðuneytið hefði svarað öllum þeim fjölmiðlum t.d. í samræmi við þær kröfur sem komu fram þá hefði það ekki verið í samræmi við upplýsingalög, alveg eins og úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að í sinni niðurstöðu. Þar væru upplýsingar sem hefði ekki átt að birta og var haldið eftir. Það var bara í einu tilteknu máli. Það var litið til atvika í því máli.

Það voru önnur mál líka til umfjöllunar sem fjölmiðlar óskuðu löngu seinna eftir, (Forseti hringir.) málavextir voru allt aðrir. Menn þurfa að hafa í huga að það þarf að taka afstöðu í ljósi aðstæðna hverju sinni. (Forseti hringir.) Svo því sé haldið til haga enn og aftur þá hef ég átt fundi með þolendum kynferðisbrota í tengslum við þessi mál og önnur, átt mjög gagnlega og fróðlega fundi (Forseti hringir.) þótt þeir séu ekki alltaf í fjölmiðlum.