149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

hækkun lægstu launa og hækkanir í þjóðfélaginu.

[10:57]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Með fullri virðingu er 500 kr. hækkun persónuafsláttar engin bylting í kjörum almennings. Hið sama má segja um 2% hækkun á fjármagnstekjuskatti. Á sama tíma og hér er bætt örlítið við barnabætur er skerðingin aukin hjá millitekjufólki.

Í seinni fyrirspurn vil ég beina til ráðherra fyrirspurn varðandi fyrirséð og raunar hafið fall krónunnar sem mun éta allar hugsanlegar kjarabætur almennings. Gengisfellingar gerast alltaf á kostnað almennings. Með gengisfellingu rýrna peningar fólksins í virði og færast í raun til stórútgerðar og erlendra ferðamanna. 10% gengisfelling þýðir nefnilega 4–5% verðbólga. Það kallar á hærri vexti. Þetta eru engin geimvísindi, herra forseti.

Nú er öllum ljóst að krónan sjálf er orsakavaldur óstöðugleika. Eins og að búa í harmonikku á sveitaballi, þannig lýstu Samtök iðnaðarins því hvernig væri að vera í atvinnurekstri á Íslandi og búa við krónuna.

Því spyr ég: Hvernig mun forsætisráðherra bæta kjör almennings vegna falls krónunnar? Eða finnst forsætisráðherra kannski eðlilegt að almenningur taki á sig fall krónunnar í enn eitt skiptið?