149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:37]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um nýja skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem er svartari en margan grunaði eða frekar sem margir vildu heyra. Við þurfum í raun að eiga hér nokkuð margar sérstakar umræður um innihald skýrslunnar, svo alvarlegt er það. Hún hefur enda verið kölluð lokaútkall, mesta viðvörun sem vísindasamfélagið hefur gefið út. Sumir segja að viðvaranirnar hafi nú þegar komið fram en viðbrögð alþjóðasamfélagsins látið á sér standa.

Eins og kunnugt er eru meginniðurstöður skýrslunnar þær að verja þarf 2,5% af heimsframleiðslu til aðgerða á sviði loftslagsmála, á hverju ári til ársins 2035, ef við ætlum ekki að afstýra því að meðalhiti á jörðinni hækki um meira en 1,5°C með hörmulegum afleiðingum fyrir lífríkið allt. Út frá þessum niðurstöðum 90 vísindamanna sem unnu skýrsluna þyrftu íslensk stjórnvöld að verja tæpum 64 milljörðum til loftslagsaðgerða sem er fimmtíufalt meira en áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir.

Sá verðmiði er sláandi hár en það er ekki það eina sem er sláandi við skýrsluna. Opinbert markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hlýnun jarðar undir 2°C en áhersla er lögð á að ríkisstjórnum aðildarríkja að samkomulaginu beri að stefna að halda hlýnun undir 1,5°C. Til þess þarf að ná skýrum árangri í því að hitastig á jörðinni hækki ekki meira en um 1,5°C fyrir árið 2030. Annars er baráttan fyrir lífvænlegri framtíð jarðarinnar töpuð.

Virðulegi forseti. Það þarf að bregðast við loftslagsbreytingum af fullri hörku. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það þarf róttækar, félagslegar, pólitískar, efnahagslegar og menningarlegar breytingar. Þeirra er þörf. Rótin að þessari sláandi niðurstöðu í skýrslunni sem við ræðum núna og loftslagsbreytingum er kapítalískt heimsskipulag. Við þurfum að horfast í augu við það. Kapítalisminn í sinni allra verstu mynd hefur haft þau áhrif að neysla okkar hefur haft eyðileggjandi áhrif á náttúruna okkar, jörðina og loftslagið. Við þurfum að ráðast í róttækar breytingar á lífsháttum okkar og skipulagi samfélagsins núna út frá þeirri meginhugsun að vernda náttúru og koma í veg fyrir meira tjón.

Það er ekki nóg, þó að vel sé, að koma fram með mjög fína aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem er nauðsynlegt skref en ekki endastöð. Við þurfum að gera svo miklu meira en að vera á tánum. (Forseti hringir.) Skýrsluhöfundar segja að til að halda hlýnun innan við 1,5°C þurfi hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa (Forseti hringir.) að vera komið úr 20% í 70% og heimurinn að vera orðinn kolefnishlutlaus fyrir miðbik aldarinnar. (Forseti hringir.) Þetta eru risastór markmið en við höfum enga aðra möguleika en að fylgja þeim. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)