149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

aðdragandi að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl., munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[13:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þakka fyrir skýrsluna sem við ræðum hér. Hún á að svara nokkrum spurningum, ekki aðeins um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis verksmiðjunnar, heldur einnig framtíð rekstrar og ítarlega greiningu á því hver eftirfylgni með verkferlum og endurskoðun þeirra var, auk kostnaðar ríkisins og annars fyrirsjáanlegs óbeins kostnaðar vegna umhverfismengunar af starfseminni.

Ég vil í upphafi ítreka að það er mikilvægt að stjórnvöld og stjórnkerfið læri af þessari hörmungarsögu sem ekki á sér fordæmi hér á landi. Þingmenn og þeir sem hér hafa komið upp og rætt skýrsluna hafa farið ítarlega í ýmis atriði hennar. Ég vil nálgast þetta mál með svolítið öðrum hætti og skoða það frekar í sögulegu ljósi.

Í frétt frá árinu 2000 segir að atvinnuástand á Suðurnesjum sé með besta móti og hafi ekki verið betra síðustu átta árin þar á undan. Í fréttum frá árinu 2006, sex árum síðar, er það helst uppi á teningnum að herinn sé að fara á því ári og segir einnig að málið skeki byggðina pólitískt. Nokkrum árum síðar, eða 2013, segir í skýrslu að íbúafækkun hafi orðið á svæðinu frá 2009 og að helstu vandamálin séu atvinnuleysi, eins og reyndar víðar á þeim tíma.

Brottför hersins kom flatt upp á landsmenn, sem hún hefði alls ekki átti að gera. Hluti af vandamálinu sem skapaðist við brottför hersins er andvaraleysi stjórnvalda, þ.e. sá að brottförin var löngu fyrirséð áður en herinn fór endanlega. Það höfðu verið uppi fyrirætlanir um árabil og jafnvel allt frá því að kalda stríðinu lauk. Atvinnuástand á Suðurnesjum var undir og litlar eða engar ráðstafanir voru gerðar í tíma. Það varð þess valdandi að þegar atvinnuleysið jókst stórkostlega við brottför hersins varð óðagotið svo víðfeðmt og langvarandi að hættu á mistökum í undirbúningi af hálfu stjórnvalda var boðið heim.

Þá var auðvitað strax farið að tala um stóriðju á svæðinu. Um leið og atvinnuleysið kom í kjölfar brottfarar hersins var farið að tala um stóriðju á svæðinu. Hver í kapp við annan. Fréttir frá þessum árum voru allar á einn veg, stóriðja skyldi leysa atvinnuvandamál svæðisins og þar var allt lagt undir. Öllu var tjaldað til, bæði af hálfu stjórnvalda, pólitíkurinnar og sveitarfélaganna. Auðvitað var áhugi fyrir stóriðju á svæðinu eins og víða annars staðar og hafði verið árum saman, en væntingar íbúa voru miklar og vonbrigðin því þeim mun meiri af því að svo illa fór. Af þessu tel ég að draga megi mikilvægan lærdóm sem við eigum auðvitað að gera.

Það er einnig ljóst að starfsemi verksmiðjunnar hafði mikla sérstöðu á starfssviði margra stofnana sem að þessu máli komu, bæði stofnana á svæðinu, sveitarfélaganna og stofnana ríkisins. Þarna voru þær að takast á við verkefni sem þau höfðu ekki komið að áður, a.m.k. ekki hvað stærð og umfang varðaði. Vonandi lærum við af þessu ævintýri, sem ég vil kalla svo, líka á sviði löggjafar. Og þar er komið að þætti okkar á Alþingi, lagasetningarvaldsins, af þessu verðum við að læra.

Svo er stórauknum ferðamannastraumi fyrir að þakka að atvinnuástand á Suðurnesjum er nú almennt gott. Ég veit svei mér ekki hvar við værum stödd varðandi þessa verksmiðju, eða einhverja aðra ef svipað ástand væri nú í atvinnumálum á Suðurnesjum og var eftir brottför hersins árið 2006. Menn grípa nefnilega til ýmissa örþrifaráða þegar svo er, jafnvel að gangsetja reykspúandi, mengandi verksmiðjur án minnsta hiks. Hv. þm. Oddný Harðardóttir kallaði vinnubrögðin fúsk.

Það er mikilvægt að læra af þeirri bitru reynslu sem þarna skapaðist. Hvaða staða er nú uppi á svæðinu? Það er allt annað uppi á teningnum núna. Nú er atvinnulíf á svæðinu í miklum blóma, sérstaklega í tengslum við og varðandi ferðamannastraum og flugstöðina. Hvernig horfir það við stjórnvöldum? Innviðirnir á svæðinu eru langt á eftir íbúafjöldanum og þörfinni á Suðurnesjum. Þetta hefur snúist gjörsamlega við. Heilbrigðisþjónustan kallar á meira fjármagn frá ríki. Framhaldsskólarnir kalla eftir meira fjármagni frá ríki, þeir anna ekki eftirspurn. Löggæslan kallar eftir meira fjármagni. Núna eru stjórnvöld langt á eftir.

Ef við snúum þessum teningi aðeins er þessu akkúrat öfugt farið núna miðað við ástandið árið 2006. Við erum langt á eftir. Það sem gerðist þá var að pólitíkin fór á taugum. Og það sem er að gerast núna er að pólitíkin sinnir ekki þessu svæði.