149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar og lít þannig á málið að það leysist með því að aðgreina þá þætti innan dómstólakerfisins, og þess vegna hjá Alþingi, sem eigi að falla undir stjórnsýslulög. Leiðir þá ekki af sjálfu að þar með er það orðin opinber stjórnsýsla í venjulegum skilningi laga og umboðsmaður Alþingis hefur þar með hlutverki sínu að gegna gagnvart því? Það held ég að sé miklu hreinlegri og eðlilegri leið en að fara að fela umboðsmanni að hafa eftirlit með einhverjum óafmörkuðum stjórnsýsluþætti dómstólanna sem samt heyrðu ekki undir stjórnsýslulög.

Ég held að betra sé að byrja á byrjuninni og ganga frá því, sem ég held að sé ekki orðin nein deila um, að hvað varðar stjórnsýsluþættina í þeirri starfsemi, bæði hjá dómstólum og löggjafanum, sé eðlilegast að það falli undir stjórnsýslulög, þar með væntanlega líka upplýsingalög og persónuverndarreglurnar og allt það.

En það þarf að aðgreina skýrt með lögum vegna þess að menn gera ekki ráð fyrir því, t.d. í tilviki Alþingis, að löggjafarstarfið sjálft falli þarna undir, frekar en að innri mál dómstólanna geri það, því að um er að ræða allt öðruvísi starfsemi og ekki eiginlega stjórnsýslu, auk þess sem menn verða að hafa í huga sjálfstæði þeirra aðila og aðgreiningu valdsins.

Það liggur fyrir að forsætisráðherra er með starf í gangi í þeim efnum og ég þykist muna að ég hafi heyrt hana að lýsa því yfir opinberlega að hún sé þeirrar skoðunar að þetta eigi að klára svona. Sama hef ég gert fyrir hönd Alþingis. Við erum þegar komin með starfshóp í það mál. Ég er því bjartsýnn á að við sjáum til lands í þeim efnum á næstu mánuðum eða misserum.