149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Það hefur lengi loðað við á íslenskum vinnumarkaði að vinnutíminn sé langur og markmið þessa frumvarps um að stytta vinnutíma er um margt hið ágætasta markmið. Ég held hins vegar að hér gæti misskilnings um hvernig íslenskur vinnumarkaður starfar. Við höfum hingað til falið aðilum vinnumarkaðarins að semja um þessi atriði, kaup, kjör og vinnutíma, og Alþingi hefur eftir atvikum lögfest það sem lögfesta þarf í tengslum við slíka kjarasamninga.

Þannig hafa kjarasamningar á Íslandi lögformlegt gildi sem samningar um lágmarkskjör á vinnumarkaði, óháð því hvort einstaklingar eða fyrirtæki eru síðan aðilar að þeim samtökum sem þá samninga gera. Það held ég að sé í sjálfu sér miklu hentugra fyrirkomulag en að löggjafinn segi aðilum vinnumarkaðarins fyrir verkum í þessum efnum því að það gleymist oft að þetta er aðeins flóknara viðfangsefni en bara að ákveða að stytta vinnutímann.

Horfum til lengri tíma. Frá því að lögin um 40 stunda vinnuviku voru sett hefur vinnutími styst um einar 20 klukkustundir á viku. Hann var um 60 klukkustundir á viku og er nokkuð nærri 40 klukkustundum á viku í dag. Þetta gerðist hægt og rólega. Það er ákvörðun viðsemjenda hverju sinni hvernig ávinningi af framleiðniaukningu í samfélaginu er skipt milli launa og vinnutíma. Þetta verður að haldast í hendur. Við vitum að launahækkunum eru þau takmörk sett að þær verða að haldast í hendur við verðbólgumarkmið og framleiðniaukningu í samfélaginu til lengri tíma litið ef ekki á að hljótast af of mikil verðbólga. Hið sama á við um styttingu vinnutíma. Þar verður að vera hið sama svigrúm til styttingar eða að launahækkanir verði minni en ella eða framleiðniaukningin meiri en ella til að þetta leiði á endanum ekki til kostnaðarauka og verðbólgu í þjóðfélaginu.

Það var einmitt reynslan af því þegar lögunum var breytt 1971 með lögboði frá þinginu að það breytti engu um vinnutíma heldur hækkaði launakostnað fyrirtækja verulega og fór beint út í verðlag, jók verðbólgu verulega á þeim tíma. Vissulega er hér gert ráð fyrir því að vinnutíminn sé einfaldlega styttur, ekki endilega með því að sömu laun hljótist fyrir. Auðvitað ber að taka tillit til þess en ég hygg engu að síður að það sé mun skynsamlegra að virða þær leikreglur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um og bent ítrekað á, m.a. í umsögnum um þetta mál þegar það hefur áður komið fram, bæði af hálfu Alþýðusambandsins og samtaka vinnuveitenda, að best fari á því að um þetta sé samið á vinnumarkaði hverju sinni.

Hins vegar er eitt sem er erfitt að koma inn í umræðu á Íslandi og það varðar lengd vinnutíma. Vinnuvika er ekki 40 stundir á Íslandi í alþjóðlegum samanburði heldur u.þ.b. 37. Það heitir virkur vinnutími og er reyndar tekið fram sérstaklega í kjarasamningum. Í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins segir t.d. í kaflanum um vinnutíma að hann sé samkvæmt samningi þeim 36,5 vinnustundir á viku án neysluhléa. Bætist síðan neysluhlé við lengist vinnutími sem því nemur en tímakaup miðast við 36,5 vinnustundir á viku.

Í kjarasamningum Eflingar við Samtök atvinnulífsins er þessi sami vinnutími skilgreindur sem 37 klukkustundir og fimm mínútur á viku.

Þetta er alþjóðlegi samanburðurinn. Þegar við tölum um 37 stunda vinnuviku á Norðurlöndum er hún nákvæmlega 37 stundir án neysluhléa. Það er mikilvægt að halda þessu til haga. Við erum ekki með 40 stunda vinnuviku þegar við tölum um það í því samhengi að það séu 40 stundir hér samanborið við 37 stundir á Norðurlöndunum. Það er í báðum tilvikum 37 vinnustundir.

Þegar við tökum þessar sömu 37 vinnustundir, eða 35 vinnustundir í Frakklandi, og berum saman við og setjum sem markmið um að stytta vinnuvikuna hér erum við í raun að tala um annaðhvort jafn langa vinnuviku, 37 vinnustundir eins og hún er hérna, eða að stytta hana um tvær vinnustundir á viku, í 35. Ég held að það sé bara gott að halda þessu til haga því að þetta hefur skekkt umræðuna hér mjög lengi. Þótt þetta sé leiðinlegt og tæknilegt atriði er það engu að síður hin tölfræðilega staðreynd í málinu.

Hins vegar er mikilvægt, og hægt að færa mjög sannfærandi rök fyrir því, að hér eru mikil tækifæri til að stytta vinnutíma. Við munum þurfa að stytta vinnutíma. Ég held að það sé ekki vafi á því þegar kemur að t.d. fjórðu tæknibyltingunni og þeim störfum sem klárlega munu þar tapast o.s.frv. að hluti af viðbrögðum okkar við þeirri miklu breytingu og framleiðniaukningu sem henni mun fylgja verður einmitt að stytta vinnuvikuna og halda áfram þeirri þróun sem verið hefur á undanförnum áratugum.

Til dæmis væri ágætt að byrja í þessum sal. Við sitjum hér — eða stöndum réttara sagt, sum — þegar klukkan er að verða 18 og allnokkur mál enn eftir á dagskrá og við munum funda hér eitthvað fram eftir kvöldi. Ég held reyndar að ég hafi sjaldan kynnst vinnustað sem er með lélegra jafnvægi milli vinnu og einkalífs en einmitt hinu ágæta, háa Alþingi. (BLG: Heyr, heyr.) Það væri svo sannarlega tilefni til að taka vinnutíma okkar til endurskoðunar, ekki til að stytta hann endilega heldur allt eins dreifa honum betur yfir árið, hvernig sem við myndum vilja ná utan um það betur. Það er oft ágætt að byrja á að taka til heima hjá sér.

Við erum óttalegir yfirvinnusóðar. Ég held að það megi alveg færa sannfærandi rök fyrir því. Stærstu tækifærin til að stytta vinnutímann til skemmri tíma litið, að mínu viti, eru að breyta öðrum þætti, nokkuð séríslensku fyrirbrigði í kjarasamningum, þ.e. hversu hátt yfirvinnuálag er í íslenskum kjarasamningum. Það er 80% en mjög algengt er að sjá, í það minnsta á fyrstu unnar yfirvinnustundir, hjá hinum Norðurlöndunum á bilinu 30–50% yfirvinnuálag. Ég held að þetta sé ein ástæða þess að við sækjum mjög í yfirvinnu.

Dagvinna er á móti heldur lægri í grunntöxtum eða hefur gegnumgangandi verið í samanburði við hin Norðurlöndin. Þetta hefur ítrekað verið rætt á milli aðila vinnumarkaðarins en því miður hefur aldrei náðst að ljúka því. Það er ekki vegna viljaleysis af hálfu aðila. Ég þekki a.m.k. af eigin raun að Samtök atvinnulífsins lögðu það til í síðustu kjarasamningum, 2015, að þetta yrði tekið sérstaklega upp og endurskilgreint. Það er flókið viðfangsefni, það er að mörgu að huga, vaktavinnufyrirkomulagi o.s.frv., en ég held að þessi breyting ein og sér myndi líka draga úr hvata til yfirvinnu.

Auðvitað myndu þá laun á dagvinnutíma hækka án þess að í því fælist endilega kostnaðarauki fyrir atvinnulífið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að huga að slíku. Oft eru einföld tæknileg atriði í kjarasamningum að búa til það sem við gætum kallað neikvæða hvata. Við köllum þetta yfirvinnusnap í daglegu tali og þetta er mjög landlægt í mörgum atvinnugreinum, að það sé alveg nauðsynlegt að vinna einn til tvo yfirvinnutíma á dag og jafnvel helst fyrir hádegi um helgar. Þessu má alveg umhella, ef mætti orða það þannig, í dagvinnu-vinnuviku, á hærri grunntöxtum þá á móti. Ég vona að okkur verði ágengt í því. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt varðandi jafnvægi milli vinnu og einkalífs, varðandi umræðuna um álag á vinnumarkaði, kulnun í starfi o.s.frv., en ekki síður varðandi umræðuna um að við búum við góð kjör fyrir dagvinnuna okkar en ekki þörfina fyrir að vinna mikla yfirvinnu.

Að því sögðu segi ég að ég vona að aðilum vinnumarkaðarins gangi vel í komandi kjarasamningum við að leysa úr þessu af því að ég tel ótvírætt að þar eigi verkefnið heima.