149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf aftur að þakka hv. þingmanni alveg sérstaklega fyrir skemmtilegt andsvar, þetta er áhugavert efni. Til að byrja á síðari punktinum: Já, það er alveg augljóst. Það eru endalaus dæmi til um það að þetta yfirvinnuslugs okkar skilar engu eða mjög litlu. Það eru fjölmörg góð dæmi til um það á vinnustöðum þar sem ákvörðun hefur verið tekin um að breyta þessu, pakka þessum heildarvinnutíma saman í dagvinnutímann, að það hefur skilað alveg sömu afköstum eða jafnvel meiri. Lykillinn er að það þarf oft að taka á því á hverjum stað fyrir sig. Það þarf að leysa þetta. Oft eru aðstæður fyrirtækja mismunandi, oft þarf að huga að alls konar sérstökum úrlausnaratriðum á staðnum. Þess vegna tel ég þetta best fallið í samningum milli aðila.

Það þarf líka að endurskilgreina þessa launasetningu að norrænni fyrirmynd að mínu viti, þ.e. að minnka yfirvinnuálag og hækka dagvinnukaupið á móti. Ég held að það sé ekki nokkur vafi að það myndi hjálpa okkur mjög mikið við að búa til jákvæðan hvata til að stytta vinnutíma. Ég er mjög trúaður á jákvæða hvata í slíkum efnum.

Varðandi hæstu launin og kjararáð. Það er mjög gaman að fara út í þá umræðu. Ef við berum saman launavísitölu á vinnumarkaði og launavísitölu kjararáðs, eins og hún hefur verið reiknuð frá því að lög um kjararáð voru sett og tóku við af lögum um kjaradóm þar á undan, 2006, kemur í ljós að laun þeirra starfsmanna ríkisins sem heyra undir kjararáð — þeir eru mismunandi margir á hverjum tíma og má ekki gleyma því að það eru ekki bara þeir sem hér sitja eða ráðherrar, það eru tugir og jafnvel hundruð starfsmanna á hverjum tíma í Stjórnarráðinu og víðar sem ekki hafa samningsrétt og er gefið það einfalda loforð að laun þeirra fylgi í takt við sambærilega hópa á gildistíma kjararáðsins — sjáum við að almenn launavísitala hefur hækkað talsvert mikið umfram launavísitölu stjórnenda, t.d. á almennum vinnumarkaði. Þetta skal ég sýna hv. þingmanni. Og launavísitala kjararáðs (Forseti hringir.) hefur hækkað algerlega í takt við launavísitölu stjórnenda á almennum vinnumarkaði, sem gæti alveg talist sambærilegur hópur þegar kemur að meðallaunum, en laun þeirra hafa hækkað umtalsvert minna en almenn laun á vinnumarkaði. Það er mikilvægt að halda þessu til haga. En það er vissulega þannig að það var úrskurðað mjög óreglulega um kjör kjararáðshópsins og því er mikill mismunur í tíma. En frá upphafi til enda er þetta sambærileg launaþróun.