149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku sem eru frá árinu 1971. Mig langar að byrja á því að velta því upp hvort í raun sé góð hugmynd að stytta vinnuvikuna. Ég held að hægt sé að færa mjög mörg rök fyrir því að það geti verið býsna góð hugmynd og mig langar að nefna þrjú þeirra sem Heilsufélagið nefnir á vefsíðu sinni og ég held að fangi ágætlega kosti þess að stytta vinnuvikuna.

Streita er víða vandamál með tilheyrandi fylgikvillum, eins og kvíða, þunglyndi og stoðkerfisvanda. Við ræddum fyrr í dag t.d. geðheilbrigðismál en Ísland er eitt þeirra ríkja í heiminum þar sem notkun þunglyndislyfja er hvað mest. 17.000 Íslendingar voru utan vinnumarkaðar á árinu 2015 vegna örorku, 8,5% vinnuaflsins, og flestir vegna geðsjúkdóma eða stoðkerfisvanda. Sá vandi hefur bara aukist.

Framleiðni er almennt talin lág á íslenskum vinnumarkaði miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Við vinnum lengi en við afköstum ekki endilega miklu. Í ljósi þess að hv. þingmenn nefndu þennan ágæta vinnustað sem dæmi getum við líka alveg velt fyrir okkur hvort lengri þingfundir skili raunverulega meiru. Íslensk börn eiga einnig Evrópumet í viðveru á leikskólum sem er sorgleg staðreynd og getur falið í sér ýmsa ókosti er lúta að heilbrigði og streitu, bæði barna og foreldra, og ýmislegt þess háttar.

Að því sögðu get ég sagt að mér finnst góð hugmynd að stytta vinnuvikuna ef það kemur raunverulega til að vinnuvikan styttist. Aftur á móti verð ég að segja að ég er ekki mjög hlynnt því frumvarpi sem liggur fyrir, þ.e. að taka lög sem segja til um 40 stunda vinnuviku. Eins og ágætlega hefur komið fram semja aðilar vinnumarkaðarins og launþegasamtaka sín á milli og er umræðan um styttingu vinnuviku mjög á borðum þar akkúrat núna. Margir aðilar hafa gert ýmiss konar tilraunir með styttingu vinnuvikunnar. Við vitum um Reykjavíkurborg og fleiri stofnanir og fyrirtæki hafa gert það.

Á síðustu árum hefur sveigjanleiki í vinnutíma aukist til muna. Ég þekki til að mynda dæmi frá sveitarfélaginu sem ég bý í, Mosfellsbæ, en þar var starfsfólkið látið vinna lengur á miðvikudögum til að auka aðgengi íbúanna að þjónustunni en á móti var vinnutími styttur á föstudögum. Þetta var gert til eins árs og var mikil ánægja með það hjá starfsmönnum og hefur því verið haldið áfram.

Að því sögðu held ég að mikilvægt sé að það hvernig full vinna er flokkuð, mánaðarlaun, sé undir þeim komið sem semja á markaði.

Ég verð að segja í ljósi þess að þetta frumvarp hefur komið fram áður og það hafa fengist um það ansi margar umsagnir að ég man ekki til þess að það sé oft þannig að við fáum umsagnir frá ASÍ, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði sem eru samhljóma, en það er einmitt raunin með þetta ágæta frumvarp. Allir aðilarnir voru sammála um að markmiðin gætu verið góð en þetta væri ótímabært inngrip löggjafans í endurskoðun sem á sér stað á vinnumarkaði milli aðila vinnumarkaðarins og væri þeirra að semja um.

Ég er mikil áhugamanneskja um að við tökum svolítið til í lagasafninu okkar og þess vegna velti ég fyrir mér hvort lögin um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, séu hreinlega óþörf. Kannski hefði verið ástæða til að leggja til lagabreytingu sem fæli í sér að taka lögin út, afnema þau.

Við eigum líka vinnuverndarlög sem eru aðeins nýrri, nr. 46/1980, og hafa svo sem tekið miklum breytingum. Þau fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ég held að mjög mikilvægt sé að löggjafinn setji slíkar reglur. Nýlegar fréttir og umræður í samfélaginu sýna okkur glöggt að mjög mikilvægt er að hér séu skýr lög um vinnuvernd og að þeim sé fylgt eftir af fullri hörku.

Ég vil þá benda hv. þingmönnum sem leggja frumvarpið fram á að ef það yrði að lögum þyrfti eflaust að horfa til laga nr. 46/1980, því að þar er m.a. vísað í 40 stunda vinnuviku, reyndar helst þegar kemur að vinnu barna og unglinga, það er sett sem algjört hámark, og fleiri aðila á vinnumarkaði.

Í lögunum sem um ræðir og við erum að velta fyrir okkur breytingum á eru ekki mjög margar greinar, þær eru í rauninni örfáar. Þær lúta að 40 stunda vinnuviku sem er vissulega hægt að semja sig frá og hefur í raun aðeins það skilyrði að vinni fólk meira en 40 stundir á viku skuli það fá greitt fyrir það yfirvinnu. Það lýtur líka að hátíðisdögum, sem er held ég örugglega líka í löggjöf annars staðar og er alveg nóg. Hátíðisdagar sem tilgreindir eru í þessu ágæta frumvarpi eru til að mynda aðfangadagur og gamlaársdagur, en þá er það aðeins hátíðisdagur frá klukkan eitt á daginn. Ég velti fyrir mér hvort það væri eitthvað sem við ættum að skoða. Ég hygg að margir séu í forréttindastöðu eins og við hér og vinni aldrei á aðfangadagsmorgun eða gamlaársmorgun og velflestir vinnustaðir hafa tök á að loka á þeim tíma. Þá er spurning hvort ekki sé ákveðin sanngirni í því að þeir sem vinna þjónustustörf og annað á stöðum þar sem talin er ástæða til að hafa opið á þeim tíma fái greidda yfirvinnu allan þann dag eða þá daga.

Svo velti ég fyrir mér sumarleyfi og frídögum starfsmanna í ljósi þess að við erum farin að ræða vinnumarkaðinn og þá þætti. Þegar ungt fólk er með börn á leikskóla er barnið „skikkað“ til að taka ákveðið marga frídaga á ári, bæði í sumarleyfi og svo er lokað á leikskólanum vegna starfsdaga og þess háttar. Venjulegt fólk getur ekki dekkað þann tíma með sumarleyfinu sínu. Mér finnst full ástæða til að skoða þetta en aftur held ég að það sé fyrst og fremst atriði sem aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja um og horfa sérstaklega til.

Virðulegur forseti. Ég held að ég sé búin að fara nokkurn veginn yfir það sem ég vildi segja. Ég ítreka enn og aftur að mér finnst stytting vinnuvikunnar nokkuð góð hugmynd, aðallega finnst mér jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs mjög góð hugmynd. Við sjáum á þessum vinnustað að jafnvægið er býsna lítið þegar kemur að þeim hlutum en það var líka okkar val þegar við buðum okkur fram til starfa hér.

Í ljósi þess að þeir aðilar vinnumarkaðarins sem hafa gefið umsögn um frumvarpið eru á því að um óæskilegt inngrip sé að ræða held ég að við ættum að leyfa aðilum vinnumarkaðarins að taka þá umræðu á sínum vettvangi og semja um það. Ég held að oft og tíðum væri ágætt að stytta vinnuvikuna. Það getur líka verið að ákveðinn sveigjanleiki henti fólki betur, aukinn frítími eða frídagar og annað. En það er fyrst og fremst þeirra að ræða en ekki endilega okkar með einhverjum lagafyrirmælum.