149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau hafa áfram alveg fullkominn rétt til að semja um hversu hár dagvinnutaxtinn er og yfirvinnutaxtinn. Það er ekkert flókið við það.

Við erum í þessum ræðustól og á þingi með tökkunum hingað og þangað að greiða atkvæði um réttindi fólks fram og til baka. Við erum með jafnréttislög og réttindi í stjórnarskrá. Við skiptum okkur þar af. Eiga aðilar vinnumarkaðarins að koma kannski að því líka varðandi t.d. misbeitingu á grundvelli kyns eða annars? Við gerðum jafnlaunavottun fyrir nokkru síðan. Var það inngrip í kjarabaráttu líka?

Við erum sífellt að vinna með réttindi fólks hérna. Þetta er skilgreining á því hversu margir dagvinnutímar á viku teljast réttindi fólks. Hvað það nákvæmlega merkir í formi kaups og kjara er síðan samningsfrelsið. Þetta er ekkert inngrip í neitt, þetta er einföld réttindaskilgreining.