149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:41]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Það er vegferð sem ég er alveg til í að leggja upp í, að skoða með hv. þingmanni hvort eitthvað sé í samkeppnislögum okkar sem við getum skerpt á og skilgreint betur, enda á slík löggjöf að vera í stöðugri þróun.

Ég hef ekki þá sannfæringu að núgildandi samkeppnislöggjöf okkar sé hin eina fullkomna samkeppnislöggjöf, þar er margt sem má örugglega bæta. Það er alveg ljóst t.d. þegar við horfum til skilgreiningar markaða að þar hefur Samkeppniseftirlitið verið nokkuð reikult í því hvað teljist markaðir hverju sinni. Það mætti alveg skerpa á leiðbeiningu löggjafans hvað það snertir.

Hv. þingmaður nefnir hverjir teljist skyldir aðilar og það má vissulega skoða nánar. Þegar við horfum hins vegar til verslunarinnar í landinu fæ ég ekki betur séð en að þrátt fyrir háværa umræðu um hið gagnstæða og þrátt fyrir fáa aðila sé þar nokkuð virk samkeppni, í það minnsta mun virkari samkeppni en í núverandi lagaumhverfi með landbúnaðarafurðirnar sjálfar og úr því viljum við bæta.