149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ef ræðan var svo slæm fyrir 15 árum hefur hún ekkert batnað. [Hlátur í þingsal.]

En nú ætla ég að spyrja jafnaðarmanninn, hv. þingmann, hvort hann sé ekki sammála mér um að eitt af því sem fylgi styrkjum til landbúnaðar sé lægra vöruverð til neytenda. Er hann ekki sammála mér um það?

Önnur spurning, af því að ég hef svo takmarkaða tíma. Hv. þingmaður talar um að styðja bændur með öðrum hætti. Með hvaða hætti, hv. þingmaður?

Í þriðja lagi. Hv. þingmaður talar um að hagur neytenda batni við að rífa niður sölufyrirtæki og það fyrirkomulag sem nú er. Ég vildi fá smáskilgreiningu á því.

En ég ætla líka að vekja athygli á þessu tómata-, gúrku-, paprikumáli sem hófst árið 2002. Hvað hefur það gert? Búið er að setja garðyrkjubændur í ákveðna hillu og menn hafa engar áhyggjur og halda áfram okra á öllum hinum grænmetistegundum í friði (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að örva hér meiri og fjölbreyttari framleiðslu.