149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafna því sem hv. þingmaður segir um að um útúrsnúning sé að ræða. Það er frekar á hinn bóginn, að hv. þingmaður hafi snúið út úr andsvörum hv. þingmanna. Ég velti því hins vegar upp við hv. þingmann ef bændur eiga ekki að semja við ríkisvaldið um starfskjör, við hverja eiga þeir þá að semja? Er það þá hugmynd þingmannsins, og væntanlega þeirra sem flytja þetta frumvarp, að bóndi sem býr einhvers staðar, segjum uppi í Borgarfirði, eigi að semja við Haga um starfskjör sín eða Sláturfélag Suðurlands? Við hverja á bóndinn að semja um starfskjör sín? Ef bændur mega ekki hafa samtök sín á milli um að semja um starfskjör sín við t.d. ríkisvaldið, við hverja eiga þeir þá að semja? Eða telur hv. þingmaður að bændur eigi að semja við vini þingmannsins í samtökum kaupmanna? Getur verið að það sé samningsaðilinn sem eigi að vera á móti bændum þegar þeir semja um starfskjör sín? Ég spyr hv. þingmann.

Mig langar líka að spyrja hvort hv. þingmaður haldi virkilega (Forseti hringir.) að bændum, alveg sama í hvaða grein þeir eru, sé ekki frjálst að framleiða og selja vörur sínar. Er bændum ekki frjálst að framleiða og selja vörur sínar þeim sem þeim sýnist?