149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[22:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar upplýsingar. Svo að því sé til haga haldið er rétt að það er heimilt að hafa ákveðið samstarf undir samkeppnislöggjöf Evrópusambandsins, svo fremi sem samanlögð markaðshlutdeild þeirra sem samstarfið eiga fari ekki yfir 5%. Hér erum við að tala um yfir 95% hjá einum aðila. Á því tvennu er auðvitað verulegur munur.

Það leiðir hugann að umræðunni um þennan ótta við samkeppnislöggjöfina sem allt annað atvinnulíf hér á landi er sett undir. Við horfum t.d. til þess að það var nær engin umræða um þetta mál á sínum tíma í þinginu. Því var slaufað hér í gegn á örfáum dögum 2004 þegar þessi undanþága var leidd í lög. Ég held að það hafi ekki einu sinni gefist tími fyrir umsagnir. Ekkert mat hefur farið fram á ávinningi af þessari undanþágu fyrir neytendur né heldur framleiðendur eða greinina sjálfa frá því að lögin tóku gildi.

Vísað er til hagræðingar í greininni og er ágætt að hafa það í huga, þegar kemur að mjólkuriðnaði, að mesta hagræðingin í mjólkuriðnaði varð einmitt í gegnum kvótakerfið á mjólk sem hafði ekkert með þessa undanþágu að gera heldur gríðarlega breytingu á framleiðsluháttum hjá bændum sjálfum í gegnum tíðina, sem hv. þingmaður vísaði sjálfur til í ræðu sinni. Það olli þessari miklu fækkun og stækkun býlanna sem á endanum skilaði verulegu hagræði í framleiðslu í mjólkuriðnaði.

Ég hef ekki séð nein sannfærandi rök fyrir því að þær undanþágur sem hér er vísað til, og svo mjög er óttast að verði afnumdar, hafi á endanum skilað einhverju stórkostlegu hagræði í greininni — hvað þá að sú undanþága hafi skilað neytendum ábata. Það er auðvitað það sem er athugaverðast við málflutning hv. þingmanns. Matvælaverð hér er umtalsvert miklu hærra en í nágrannalöndum okkar, fyrst og fremst (Forseti hringir.) út af þeim innlendu matvælum sem við verndum hvað mest. Þegar við berum okkur saman við Norðurlöndin sést að munurinn liggur þar. Það eru þeir hagsmunir sem við erum að berjast fyrir í þessu máli og engir aðrir.