almannatryggingar.
Herra forseti. Mig langar að segja í upphafi að í mínum huga snúast almannatryggingar í landinu um að veita fólki öryggisnet sem sökum fötlunar, sjúkleika eða elli getur ekki skapað sér tekjur með atvinnu. Það á í mínum huga fyrst og fremst að vera hlutverk almannatryggingakerfisins. Að því sögðu tel ég einnig að við eigum að hafa kerfið þannig að það styðji fólk til sjálfsbjargar og að það geti bætt kjör sín.
Hv. þingmaður spyr mig út í tölur frá Tryggingastofnun ríkisins og ef ég skildi hann rétt, því að ég hef ekki kynnt mér þær náið, snúast þær um að það kosti 1 milljarð samkvæmt þeim að afnema allar skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna. Það eru þá aðrar tölur en komu fram fyrr í kvöld þar sem talað var um að frumvarpið gæti kostað 3,7 milljarða. Svo er talað um það í greinargerð að aðgerðin þurfi ekki endilega að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, að jafnvel sé hugsanlegt að ríkissjóður geti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.
Það er dálítið mikið af ólíkum tölum í gangi og hugsanlega, kannski eitthvað. (Forseti hringir.) Ég er ekki í stöðu til að dæma um hvað er rétt hérna en ég tel hins vegar að þegar kemur að því að forgangsraða fjármunum ríkisins eigi fyrst og fremst að setja þá í að tryggja grunninn til þeirra sem ekkert annað geta gert til þess að bæta kjör sín.