149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, málshefjanda, fyrir að vekja athygli á þessu umræðuefni, öryggis- og varnarmálum. Ég ætla aðeins að beina sjónum að því máli í þrengri skilningi, ekki víðari skilningi. Um leið vil ég líka þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir, að mínu mati, ágætissvör. Ég vil hins vegar taka undir með hv. málshefjanda varðandi það að við þurfum að ræða þessi mál oftar, þingheimur, og þá þvert á alla flokka og nýta hvert tækifæri til þess.

Ég styð eindregið það sem kemur fram í þingsályktuninni um þjóðaröryggi frá 2016, þau leiðarljós sem þar eru. Ég dreg það fram að ekki eiga allir flokkar aðild að þjóðaröryggisráði og vil ég mótmæla því sérstaklega. Það er mikilvægt að öll lýðræðislega kjörin öfl hafi aðgang að því og sitji í þjóðaröryggisráði í dag. Þannig er það ekki. Ég vil hvetja hæstv. ráðamenn til að beita sér fyrir breytingum í þá veru, ekki síst til að auka samstöðu og skilning meðal allra kjörinna fulltrúa hér á þingi hvað þetta varðar. Þetta er risamál og við þurfum að huga betur að því.

Ég er óþreytandi að draga fram að hvert það skref sem við Íslendingar höfum stigið í alþjóðamálum, í alþjóðasamstarfi — hvort sem er í gegnum NATO, EES-samninginn, Sameinuðu þjóðirnar, EFTA-samstarfið — hefur verið tekið til að styrkja fullveldi landsins. Það hefur eflt okkur. Hitt er síðan annað mál hvernig við ætlum að vera sem þátttakendur. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að við séum raunsæ, að við áttum okkur á því að að friður okkar og frelsi er ekki ókeypis af því að einhver annar er að passa okkur. Við verðum líka að axla ábyrgð. Hið opinbera verður að ábyrgjast öryggi þjóðarinnar og það verður gert í fullu samstarfi og í fullri þátttöku okkar Íslendinga á alþjóðavísu, hvort sem er í gegnum NATO eða aðrar mikilvægar stofnanir.